Fjárfestu erlendis fyrir 15 milljarða á 3 mánuðum

Páll Pétursson félagsmálaráðherra segir að ein af ástæðum þess að afföll af húsbréfum hafa aukist mikið á seinustu vikum sé sú að mikið fé hafi streymt úr lífeyrissjóðum í fjárfestingar erlendis eftir að heimild sjóðanna til að fjárfesta erlendis var rýmkuð. Hann segir lífeyrissjóðina eiga 70 milljarða í húsbréfum og væntir þess að verkalýðshreyfingin beiti áhrifum sínum í lífeyrissjóðunum til að rétta við hlut húsbréfanna, enda sé það sameiginlegt hagsmunamál allra.

200 manns í vandræðum vegna mikilla affalla á húsbréfum

Fram kom á fundi ráðherra með bankastjórum Seðlabankans í gær að lífeyrissjóðirnir fjárfestu fyrir rúma 15 milljarða erlendis á fyrstu þremur mánuðum ársins eða fyrir 3 milljarða í janúar, 6 milljarða í febrúar og 6,4 milljarða í mars. "Það sér auðvitað á þegar svona kemur fyrir," sagði Páll.

Félagsmálaráðherra sagði að ástandið á húsbréfamarkaðinum hefði færst til betri vegar í gær og afföll á bréfum farið niður í 6,5% en mest urðu þau sl. fimmtudag eða upp undir 20%.

"Það er hins vegar ekkert spaug fyrir fólk að lenda í því að þurfa að láta bréf með afföllum ef menn geta ekki setið með þau og beðið af sér þetta hret sem stendur vonandi ekki lengi. Samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði getur verið um 200 manns að ræða sem lenda í einhverjum vandræðum ef þeir þurfa að sæta því að selja með afföllum," sagði Páll.

Félagsmálaráðherra sagði lífeyrissjóðina eiga feiknamikið af húsbréfum. "Þeir eiga 70 milljarða í húsbréfum og þar af leiðandi er það ekki skynsamlegt fyrir þá að gera þetta að lélegum pappírum. Þau eru með ríkisábyrgð og eru miklu öruggari béf heldur en þessi hlutabréf sem mest hafa verið í tísku á undanförnum vikum en þar er fyrst og fremst verið að kaupa von í einhverju gróðafyrirtæki eða snjallræði sem á eftir að sýna sig og gengur sjálfsagt ekki allt upp," sagði hann.

"Maður verður að vænta þess að verkalýðshreyfingin, sem ræður miklu um stefnu lífeyrssjóðanna, muni bregðast þannig við að rétta hlut húsbréfanna, vegna þess að með miklum afföllum eru þau öllum til tjóns. Mikil afföll geta líka orðið til að hækka húsnæðisverð ef húsbyggjendur, sem eru að byggja til að selja, sjá fram á að þeir geti ekki losnað við bréfin með skikkanlegu móti. Þá smyrja þeir því auðvitað á verðið og það kemur þá niður á neytandanum. Verkalýðshreyfingin hefur náttúrlega samfélagslega ábyrgð og ég á ekki von á því að hún skorist undan því að taka á því máli ef á þarf að halda," sagði Páll.

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hittu forystumenn ASÍ í gær að ósk ASÍ þar sem farið var yfir stöðu mála. Páll sagðist myndu ræða betur við fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar á næstunni um þessi mál.

Lagfæra ýmis tæknileg atriði

Ríkisstjórnin hyggst ekki grípa til sérstakra aðgerða vegna áhrifanna af þeirri hækkun sem orðið hefur á ávöxtunarkröfu húsbréfa en félagsmálaráðherra sagði að það væri í hendi stjórnvalda að lagfæra ýmis tæknileg atriði s.s. varðandi viðskiptavakt með húsbréf og upplýsingagjöf og væntanlega yrði það gert sem nauðsynlegt væri talið til að greiða fyrir eðlilegum viðskiptaháttum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK