Íslandsmeistararnir með bakið upp við vegg

Dedrick Basile var stigahæstur hjá Grindavík í kvöld.
Dedrick Basile var stigahæstur hjá Grindavík í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Íslandsmeistarar Tindastóls eru með bakið upp við vegg eftir tap gegn Grindavík í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik á Sauðárkróki í kvöld en leiknum lauk með ellefu stiga sigri Grindavíkur, 99:88.

Með sigrinum komst Grindavík í 2:0 í einvígi liðanna en vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins.

Grindvíkingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og skoraði 31 stig í fyrsta leikhluta gegn 22 stigum Tindastóls. Grindvíkingar héldum uppteknum hætti í öðrum leikhluta þar sem þeir skoruðu 33 stig gegn 19 stigum Tindastóls og Grindavík leiddi með 23 stigum í hálfleik, 64:41.

Sauðkrækingum tókst ekki að laga stöðuna í þriðja leikhluta en tókst þó að halda Grindavík undir 30 stigunum. Staðan að þriðja leikhluta loknum var 88:56, Grindavík í vil.

Sauðkrækingar byrjuðu fjórða leikhluta á ótrúlegan hátt þar sem Tindastóll skoraði fyrstu 19 stig leikhlutans og tókst þannig að minnka muninn í 13 stig. Lengra komust þeir hins vegar ekki og Grindavík fagnaði nokkuð öruggum sigri.

Fyrirliðinn Ólafur Ólafsson átti stórleik fyrir Grindavík og skoraði 24 stig, ásamt því að taka tólf fráköst. Þá skoraði Dedrick Basile 26 stig, tók fjögur fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Callum Lawson var stigahæstur hjá Tindastóli með 19 stig og níu fráköst og Adamas Drungilas skoraði 18 stig, tók níu fráköst og gaf eina stoðsendingu.

Þriðju leikur liðanna fer fram í Smáranum í Kópavogi á föstudaginn kemur og getur Grindavík tryggt sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins með sigri en vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sigur í einvíginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert