Meira en ég hafði húmor fyrir

Haukamaðurinn Þráinn Orri Jónsson í færi á línunni í kvöld.
Haukamaðurinn Þráinn Orri Jónsson í færi á línunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haukar unnu FH, 31:28, í sannkölluðum Hafnarfjarðarslag í úrvalsdeildinni í handbolta í Kaplakrika í kvöld. Þjálfari Hauka, Ásgeir Örn Hallgrímsson, var gríðarlega sáttur með sigurinn og að Haukar séu búnir að vinna tvö efstu lið deildarinnar, FH og Val, eftir áramót.

„Fyrri hálfleikurinn þróaðist eins og við vildum. Við skorum 19 mörk í fyrri hálfleik sem er frábært. Við spiluðum 5-1 vörnina frábærlega og síðan nýtum við færin vel," svaraði hann í samtali við mbl.is, spurður út í þróun leiksins.

Þeir koma miklu sterkari inn í síðari hálfleikinn og ná að vinna upp 5 marka forskot og komast yfir á 11 mínutum. Hvað gerðist?

„Við vissum og töluðum um það í hálfleik að þeir kæmu með áhlaup strax í síðari hálfleik. Þetta áhlaup var meira en ég hafði húmor fyrir en síðan náðum við að trekkja þetta aftur í gang, róteringarnar hjá okkur heppnuðust mjög vel. Aron kom gríðarlega vel inn og það var bara mjög góð liðsheild sem vann þennan leik í kvöld."

Þeir fara í 5-1 vörn og taka Guðmund Braga út úr leiknum í síðari hálfleik. Þið virðist ekki eiga nein svör við því í sókninni. Hvernig snéruð þið þessari stöðu við aftur?

„Guðmundur Bragi kom bara útaf og kældi sig aðeins og Adam kom inn í staðinn. Það gekk upp og við náðum aftur taktinum. Síðan kom Tjörvi rosalega sterkur inn í þennan leik ásamt mörgum öðrum. Síðustu 12 mínuturnar náðum við aftur upp góðum varnarleik og þetta voru bara svona allskonar tímapunktar sem skiluðu okkur þessum sigri."

Nú eru Haukar búnir að vinna bæði Val og FH sem eru tvö efstu liðin í deildinni. Hvert stefna Haukar núna?

„Ég ætla ekkert að fara framúr mér. Ég er rosalega ánægður með þennan leik og næsti leikur er Selfoss á Ásvöllum. Við töpuðum gegn þeim á Selfossi og við þurfum að kvitta fyrir það á Ásvöllum," sagði Ásgeir Örn að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert