Of fáir fylgjendur á Instagram

„Kraftlyftingasambandið hefur staðið mjög þétt við bakið á mér og þeir hjálpa sínu fólki varðandi keppnisferðir erlendis og annað,“ sagði Kristín Þórhallsdóttir, margfaldur Íslandsmeistari í kraftlyftingum, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Kristín, sem er 37 ára gömul, hafnaði í þriðja sæti á heimsmeistaramótinu í Halmstad í Svíþjóð á dögunum en hún byrjaði að æfa íþróttina fyrir tveimur árum síðan.

Þar sem hún er tiltölulega ný í íþróttinni er hún ekki með marga styrktaraðila á bakvið sig og þá hefur henni gengið erfiðlega að fá fyrirtæki til þess að styðja við bakið á sér.

„Þegar maður byrjar að æfa eins og fólk á heimsmælikvarða þá fer þetta að taka ansi langan tíma og af því leiðir að maður verður fyrir bæði tekju- og atvinnutapi,“ sagði Kristín.

„Ég reyndi á tímabili að fá einhver fyrirtæki til að styðja við bakið á mér en þar er mikið horft til samfélagsmiðla og ég er einfaldlega ekki með nægilega marga fylgjendur þar,“ sagði Kristín meðal annars.

Viðtalið við Kristínu í heild sinni má nálgast með því að smella hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert