Flautumark í leiknum sem var hætt

Leikmenn Roma fagna marki ásamt Evan Ndicka.
Leikmenn Roma fagna marki ásamt Evan Ndicka. AFP/Filippo Monteforte

Roma vann dramatískan sigur á Udinese, 2:1, þegar síðustu 18 mínútur leiks liðanna í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu voru spilaðar í Udine í gærkvöldi.

Leiknum um þarsíðustu helgi var hætt á 72. mínútu þegar Evan Ndicka, varnarmaður Roma, hné niður. Kom í ljós að lunga Ndicka féll saman og er hann á batavegi.

Því þurfti að klára leikinn, síðustu 18 mínúturnar auk uppbótartíma, í gærkvöldi en staðan var 1:1 þegar hann var upphaflega flautaður af. Roberto Pereyra skoraði fyrir Udinese og Romelu Lukaku fyrir Roma.

Rómverjar nýttu sér uppbótartímann því Bryan Cristante skoraði dramatískt sigurmark á fimmtu og síðustu mínútu uppbótartímans og tryggði gestunum sætan sigur.

Roma er í fimmta sæti með 58 stig, en allar líkur eru á því að fimmta sætið í ítölsku A-deildinni muni gefa sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili vegna góðs árangurs ítalskra liða í Evrópukeppnum á yfirstandandi tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert