„Kveiktum í pöllunum“

Ásbjörn og Aron Pálmars fagna sigrinum í kvöld.
Ásbjörn og Aron Pálmars fagna sigrinum í kvöld. mbl.is/Eyþór

„Ég er hrikalega ánægður með liðið og hrikalega ánægður með stuðninginn sem við fengum í dag. FH-ingar á áhorfendapöllunum voru gersamlega geggjaðir. Við komum sterkt inn í leikinn og kveiktum í pöllunum og það virkaði eins og púðurtunna,“ sagði FH-ingurinn Ásbjörn Friðriksson eftir að FH tryggði sér sæti í úrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í kvöld. 

FH lagði ÍBV að velli 34:27 í oddaleik í Kaplakrika undanúrslitum og því samtals 3:2. FH-ingar voru mjög ferskir strax í upphafi leiks og náðu strax í forskot. Kann Ásbjörn einhverja skýringu á því? 

„Stundum er þetta bara svona. Menn hitta stundum vel á það. Leikur ÍBV er alltaf rosalega hraður fyrsta korterið eða svo en okkur tókst að keyra vel á þá eins og við höfðum ætlað okkur. Þeir lenda í smá veseni með að keyra þegar þeir fara í 5-1 vörn. Okkur gekk vel að komast heim í vörnina í stað þess að fá okkur hraðar sóknir og þar leið okkur vel. Leikáætlunin gekk upp í dag og þetta var vel gert hjá okkur.“

Leið furðu vel eftir 80 mínútna leik

Ásbjörn er 36 ára gamall og hefur verið lengi að. Hann lék virkilega vel í oddaleiknum í kvöld og dró vagninn í uppstilltum sóknum. Er skrokkurinn í toppstandi eftir sjö leiki í úrslitakeppninni? 

„Maður er búinn að æfa síðan tímabilinu lauk í maí í fyrra til að lifa af seríur eins og þessar. Nú eru búnir sjö leikir í úrslitakeppninni og maður er enn ferskur. Mér leið bara furðu vel eftir þennan 80 mínútna leik á miðvikudaginn í Eyjum. Við fengum þrjá daga á milli leikja og það munar um hvern dag. En ég ætla ekki að ljúga því að það sé ekki gott fyrir mig að fá þessa pásu sem er framundan,“ sagði Ásbjörn en ekki liggur fyrir hvenær Afturelding og Val ná að útkljá sín mál í hinni undanúrslitarimmunni. Þar er staðan 2:1 fyrir Aftureldingu en framundan er landsleikjahlé auk þess sem Valur er í úrslitum í Evrópukeppni. 

Ásbjörn hrósaði stuðningsmönnum FH fyrir þeirra framlag.
Ásbjörn hrósaði stuðningsmönnum FH fyrir þeirra framlag. mbl.is/Eyþór

Reiknuðu ekki með að Aron yrði með

FH þurfti að leika án Arons Pálmarssonar sem fór meiddur af velli í fjórða leiknum gegn ÍBV á dögunum. Á hvaða tímapunkti vissu leikmenn FH að Aron yrði ekki með? 

„Við undirbjuggum okkur fyrir þennan leik á þann veg að Aron yrði ekki með. Ef hann myndi geta beitt sér þá yrði það alger bónus en við reiknuðum ekki með honum. Það er miklu betra heldur en að allir séu að bíða í von og óvon eftir því hvort leikmaður verði með eða ekki. Maður vissi að aðrir þyrftu að taka meira af skarið en við erum með mjög gott lið og getum spilað handbolta í háum gæðaflokki þótt einhver detti út. En að sjálfsögðu er miklu betra að hafa Aron Pálmarsson í liðinu heldur en utan liðsins. En við vorum hvergi bangnir þótt við værum án hans. Einnig vildum við vinna leikinn fyrir hann og Jakob [Martin Ásgeirsson sem tók út leikbann] svo síðasti leikurinn á tímabilinu yrði ekki með þá í stúkunni,“ sagði Ásbjörn Friðriksson sem skoraði 6 mörk í kvöld og var mjög ógnandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert