Erfitt í Aachen eftir meiðsli Sveindísar

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta mátti þola tap, 3:1, á útivelli gegn Þýskalandi í öðrum leik sínum í undankeppni EM í Aachen í kvöld.

Ísland er með þrjú stig eftir 3:0-heimasigurinn á Póllandi í fyrsta leik. Þýskaland er með sex stig eftir tvo leiki. Austurríki vann 3:1-sigur á Póllandi og er með þrjú stig eins og Ísland. Pólland er án stiga.

Þýska liðið byrjaði af miklum krafti og strax á 4. mínútu var Lea Schüller búin að skora fyrsta mark leiksins. Hún skallaði þá í netið af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Sarai Linder.

Alexandra Jóhannsdóttir með boltann í kvöld.
Alexandra Jóhannsdóttir með boltann í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Íslenska liðið svaraði markinu af krafti og Glódís Perla Viggósdóttir, Diljá Ýr Zomers og Ingibjörg Sigurðardóttir fengu allar tækifæri til að jafna metin.

Glódís skallaði yfir af stuttu færi, Diljá átti skot úr teignum sem var varið og Ingibjörg skaut yfir úr úrvalsfæri.

Lea Schüller fékk tækifæri til að skora sitt annað mark á 22. mínútu en hún hitti ekki boltann í teignum þegar hún slapp aftur fyrir vörnina.

Strax í næstu sókn jafnaði Ísland í 1:1. Hlín Eiríksdóttir skoraði þá úr þröngu færi í fjærstönginni, eftir sendingu frá Diljá Ýr Zomers.

Glódís Perla Viggósdóttir í eldlínunni.
Glódís Perla Viggósdóttir í eldlínunni. Ljósmynd/Alex Nicodim

Þremur mínútum eftir jöfnunarmarkið varð íslenska liðið fyrir áfalli þegar Kathrin-Julia Hendrich braut harkalega á Sveindísi Jane Jónsdóttur, sem fór meidd af velli í kjölfarið.

Íslenska liðið virtist slegið eftir atvikið og það nýtti Schüller sér á 34. mínútu þegar hún kom Þjóðverjum aftur yfir með svipuðu marki, en nú eftir fyrirgjöf frá Klöru Bühl.

Lena Oberdorf bætti svo við þriðja markinu í uppbótartíma fyrri hálfleiks er hún potaði boltanum yfir línuna eftir að Íslandi mistókst að koma boltanum í burtu eftir horn, sem þýska liðið átti ekki að fá.

Þeim dómi var ekki breytt og Þýskaland fór með tveggja marka forskot inn í hálfleikinn, 3:1.

Klara Bühl fékk fyrsta færi seinni hálfleiks á 49. mínútu en hún setti boltann rétt framhjá úr teignum. Eftir það kom fínn kafli hjá Íslandi og Alexandra Jóhannsdóttir skallaði rétt yfir úr teignum á 58. mínútu.

Byrjunarlið Íslands í dag.
Byrjunarlið Íslands í dag. Ljósmynd/Alex Nicodim

Fjórum mínútum eftir það slapp íslenska liðið með skrekkinn, þegar Jule Brand skallaði í stöngina af stuttu færi. Schüller fékk tækifæri til að fullkomna þrennuna strax í kjölfarið en Fanney Inga Birkisdóttir í marki Íslands var vel staðsett.

Þjóðverjar tóku í kjölfarið völdin og Jule Brand, Klara Bühl, Lena Oberdorf og Lea Schüller fengu allar færi á næstu tíu mínútum en áttu erfitt með að ná almennilegri tilraun á markið.

Þrátt fyrir margar tilraunir tókst Þjóðverjum ekki að bæta við marki í seinni hálfleik og tveggja marka þýskur sigur varð raunin.

Þýskaland 3:1 Ísland opna loka
90. mín. Leik lokið Sanngjarn sigur Þýskalands, en fínir kaflar hjá íslenska liðinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert