Áherslan lögð á jákvæða baráttu

Frá opnun kosningamiðstöðvarinnar í gær.
Frá opnun kosningamiðstöðvarinnar í gær. mbl.is/Eyþór

Ungir sjálfstæðismenn ætla að auðvelda ungu fólki að komast í eigið húsnæði með því að auka framboð lóða og lækka kostnað við þær. Einnig vilja þeir finna flugvellinum nýjan stað í eða nálægt Reykjavík og kanna hvort koma megi á þráðlausu tölvusambandi um alla borg.

Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Gísla Marteins Baldurssonar borgarfulltrúa og Bolla Thoroddsen, formanns Heimdallar, þegar þeir opnuðu í gær kosningamiðstöð ungra sjálfstæðismanna á jarðhæð gamla Morgunblaðshússins í Aðalstræti 6. Verður þar opið hús frá kl. 16-22 alla daga og ungir frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins ætíð til viðtals. Þá verða þar haldnir fundir um borgarmálefni með stjórnmálamönnum og fagfólki.

Gísli Marteinn sagði í ávarpi sínu að Heimdallur væri samviska Sjálfstæðisflokksins og minnti fólk ævinlega á að þeir pakkar sem stjórnmálamenn hefðu að bjóða umbjóðendum sínum hefðu alltaf í för með sér kostnað. Þá benti hann á að unga fólkið hefði greinilega mikinn vilja og djörfung, enda segðist það "ætla" í stað þess að "vilja".

Forvarnarstarf, battavellir og umferðarmál meðal stefnumála

Bolli Thoroddsen sagði í ávarpi sínu að slagorð baráttu ungra sjálfstæðismanna, broskarlinn :D, væri tákn jákvæðrar kosningabaráttu, þar sem lögð væri áhersla á það sem ungir sjálfstæðismenn vildu gera fyrir ungt og barnlaust fólk í borginni. "Því miður verður þó ekki komist hjá því að rifja upp S-in fjögur: Skuldasöfnun, skattaáráttu, skipulagsslys og stjórnkerfisútþenslu R-listans," sagði Bolli um leið og hann kynnti heimasíðuna www.d.is, sem opnuð verður í næstu viku, en þangað getur fólk sent sjónarmið sín og athugasemdir.

Meðal annarra mála sem ungir sjálfstæðismenn setja á oddinn vegna komandi borgarstjórnarkosninga eru forvarnarstarf íþróttafélaganna, mislæg gatnamót til að leysa umferðarhnúta borgarinnar, fjölgun uppákomna, bæði í úthverfum og miðborg Reykjavíkur, og fjölgun spark- og battavalla þannig að þeir verði í göngufæri í öllum hverfum borgarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert