Mikilvægt að virða leikreglur lýðræðisins

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að mótmæli séu eðlilegur þáttur í því að búa í lýðræðisríki, en það sé mikilvægt að leikreglur lýðræðisins séu virtar. 

„Því miður þá er það víða þannig að þeir sem eru mjög að veita stjórnvöldum eða stjórnmálamönnum aðhald í öðrum ríkjum, þeir komast ekki upp með hvað sem er; og hafa engin tækifæri til þess að koma fram og mótmæla og beita sér eins og á við á Íslandi.

Þetta er eðlilegur þáttur að því að búa í lýðræðisríki, að fólk tjái skoðanir sínar. En það er hins vegar mjög mikilvægt að við virðum leikreglur lýðræðisins á Íslandi. Og samkvæmt leikreglum lýðræðisins þá var gengið hér til kosninga árið 2021. Þá fékk Sjálfstæðisflokkurinn, sem ég er formaður í, flest atkvæði. Það fór enginn þingmaður inn á þing með fleiri sér að baki en einmitt ég,“ sagði Bjarni sem var gestur í Dagmálum Morgunblaðsins. 

Hann segir mönnum frjálst að hefja undirskriftarsafnanir eða standa fyrir mótmælum, gagnvart sér eða sinni stefnu, „en ég er einfaldlega óhaggað með gríðarlega sterkt umboð til minna verka“.

Hefur alveg nóg að hugsa um í dag

Spurður út í pólitíska framtíð sína segir Bjarni:

„Ég persónulega hef alltaf valið að ofhugsa ekki hlutina, og hef fundið það mjög sterkt, og það hjálpar mér að sinna mínum verkefnum að vera ekki að reikna það út hvernig mér líður, eða reyna spá fyrir um það um næstu áramót eða í febrúar í næsta ári. Ég hef alveg nóg að hugsa um í dag. Ég held að það sjúgi alla orku úr fólki sem ætlar að ofhugsa framtíðina langt fram í tímann.

Við sjáum það bara af atburðum síðustu mánaða, frá því að ég vék úr embætti í fjármálaráðuneytinu og við erum komin í þessa stöðu núna þar sem Katrín [Jakobsdóttir] er farin í forsetaframboð og það er kominn endurnýjaður styrkur í stjórnarsamstarfið með því að við höfum raðað upp á nýtt í stóla og skerpt á áherslumálunum. Við sjáum hvað mikið gerist á hálfu ári í stjórnmálum.

Þannig að ég hef ákveðið að taka ekki ákvörðun um mína framtíð fyrr en að það er nauðsynlegt að taka þær ákvarðanir,“ segir Bjarni. 

Áskrifendur geta horft á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert