Nokkur stór rán eru enn óupplýst

Lögreglumenn rannsaka brunnar peningatöskur í Hvalfirði árið 1995.
Lögreglumenn rannsaka brunnar peningatöskur í Hvalfirði árið 1995. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Rán á borð við það sem framið var í vikunni þegar tveir karlmenn brutust inn í peningaflutningabíl Öryggismiðstöðvarinnar í Hamraborg í Kópavogi og höfðu á brott með sér um 20-30 milljónir króna eru ekki sérlega algeng hér á landi.

Þó eru nokkur dæmi um að ræningjar hafi komist yfir háar fjárhæðir og sum þeirra mála eru enn óupplýst.

Eitt af stærstu peningaránum hér á landi var rifjað upp í Morgunblaðinu nýlega þegar brotist var inn í Kaupfélag Norður-Þingeyinga á Raufarhöfn í október 1950 og peningaskápur, sem í voru rúmlega 100 þúsund krónur í reiðufé, tæmdur.

Miðað við verðlagsreiknivél Hagstofu Íslands má ætla að þessi fjárhæð samsvari á áttundu milljón króna nú. Þrátt fyrir umfangsmikla rannsókn þar sem m.a. var gerð húsleit í öllum húsum í bænum og fylgst með mannaferðum þaðan var þetta mál aldrei upplýst.

Tvö rán í sama mánuði

Tvö rán voru framin í febrúar árið 1984. Þann 10. febrúar var ungum manni af óútskýrðum ástæðum hleypt inn í útibú Iðnaðarbanka Íslands við Drafnarfell í Reykjavík eftir að bankanum hafði verið lokað.

Fram kom í Morgunblaðinu daginn eftir að maðurinn hefði náð að hrifsa til sín peninga úr skúffu gjaldkera og hvarf síðan út í myrkrið. Talið var að ránsfengurinn hefði numið hátt á fjórða hundrað þúsund króna. Gera má ráð fyrir að þessi upphæð samsvari um 5 milljónum króna nú.

Rúmri viku síðar, þann 18. febrúar, var framið vopnað rán við næturhólf Austurbæjarútibús Landsbankans við Laugaveg. Ræninginn, sem var vopnaður afsagaðri haglabyssu, ógnaði tveimur starfsmönnum ÁTVR sem voru að leggja innkomu dagsins, 1.840.000 krónur, inn í næturhólfið. Miðað við fyrrgreinda verðlagsreiknivél svarar þessi fjárhæð til nærri 28 milljóna króna nú.

Nokkrum dögum síðar voru karlmaður og tveir synir hans handteknir þegar þeir voru á leið úr landi. Var annar sonanna, sem var 19 ára, grunaður um ránið og raunar einnig um ránið í Iðnaðarbankanum.

Hann játaði síðar verknaðinn og stærstur hluti ránsfengsins fannst en ávísanir, sem höfðu verið í peningapokanum, höfðu verið rifnar. Pilturinn var síðar dæmdur í 5 ára fangelsi, vitorðsmaður hans í 2 ára og sex mánaða fangelsi og faðir piltsins í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Ránið í Iðnaðarbankanum var hins vegar aldrei upplýst.

Peningaskápur brotinn upp

Um verslunarmannahelgina í ágúst 1991 var framið rán á Borgarfirði eystra, sem minnti nokkuð á Raufarhafnarmálið. Þá var brotist inn í afgreiðslu Landsbankans, sem var til húsa í fiskvinnsluhúsi og peningaskápur brotinn upp.

Í Morgunblaðinu segir að skápurinn hafi verið rammgerður og þurft hefði þung áhöld og talsverða krafta til að opna hann. Þjófurinn eða þjófarnir höfðu á brott með sér um 1 milljón króna í peningum, sem svarar til nærri 4 milljóna króna nú. Þetta mál var aldrei upplýst.

Farið er yfir fleiri ráns- og þjófnaðarmál á síðu 28 í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert