Sótt að Guðna að sitja áfram

Guðni Th. Jóhannesson hefur gegnt embætti forseta Íslands frá árinu …
Guðni Th. Jóhannesson hefur gegnt embætti forseta Íslands frá árinu 2016. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands hafa borist stöðugar hvatningar og áskoranir um að endurskoða ákvörðun sína um að láta af embætti í sumar. Þetta staðfestir forsetinn sem kveðst þó ekki vera á þeim buxunum „nema afar ríkar ástæður séu til“.

Guðni tilkynnti sem kunnugt er um áramótin að hann muni ekki sækjast eftir endurkjöri þegar öðru kjörtímabili hans lýkur 31. júlí. Við það tækifæri sagði hann að eftir vandlega íhugun hefði hann ákveðið að láta hjartað ráða för og láta staðar numið. Guðni hefur síðar sagt að hann hlakki til að snúa sér aftur að fræðastörfum og kennslu.

Síðustu daga og vikur hefur mikill fjöldi fólks annaðhvort lýst yfir framboði eða lýst áhuga á framboði til embættis forseta. Við það virðist sem mörgum lítist ekki á blikuna og sæki nú fastar að Guðna en áður að endurskoða ákvörðun sína.

Samkvæmt upplýsingum blaðsins hefur fólk þó lýst þessum skoðunum sínum jafnt og þétt alveg frá áramótum. Þannig komi jafnan margir að máli við hann á förnum vegi og á mannamótum og embætti forseta Íslands hafi borist talsvert af tölvupóstum þessa efnis. Á Facebook-síðu forsetans má einnig sjá þó nokkuð af ummælum í þessa veru.

Morgunblaðið leitaði viðbragða Guðna vegna þessa í gær. Hann baðst undan viðtali, enda í fríi í útlöndum, en sendi stutt svar í tölvupósti þar sem hann staðfestir þetta:

„Ég hef fengið áskoranir, beiðnir og spurningar um hvort hefja megi söfnun undirskrifta en hef ekki léð máls á slíku. Sem fyrr er ég þakklátur fyrir góðan stuðning. Ákvörðun um að láta gott heita er hins vegar það stór að henni verður ekki breytt nema afar ríkar ástæður séu til þess.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert