Hjá Höllu leitar að nýju atvinnuhúsnæði

Halla María Svansdóttir leitar nú að húsnæði til leigu undir …
Halla María Svansdóttir leitar nú að húsnæði til leigu undir reksturinn á meðan óvissa er um framtíð Grindavíkur. mbl.is/Ásdís

Veitingakonan Halla María Svansdóttir, eigandi Hjá Höllu, leitar nú að atvinnuhúsnæði til leigu í 1-2 ár. Halla hefur rekið Hjá Höllu við góðan orðstýr í Grindavík undanfarin ár, og er einnig með veitingastað á Keflavíkurflugvelli. 

Í færslu á Facebook segist halla hafa fulla trú á því að þau munu á endanum fara aftur heim en á meðan óvissa ríkir þurfi þau aðstöðu til að halda áfram með reksturinn. 

„Ég er svo sammála, það þarf að vera raunsær þó það sé ekki auðvelt. Ég er búin að gefa allt svigrúm sem ég tel vera hægt að gefa frá minni hálfu til þess að bíða eftri góðum svörum en ég held að við verðum að bíða áfram,“ skrifar Halla. 

Hvenær framtíðin hefst er óljóst

Hún segist trúa því að framtíðin sé björt fyrir Grindavík en að hvenær sú framtíð byrjar er óljóst. 

„Á meðan er ég ekki tilbúin að sleppa tökum og ætla að halda áfram og vera tilbúin að fara til baka þegar tími gefst og er réttur fyrir hvern og einn. Það er líka mikilvægt að allir skilji og taki tillit til ákvarðana sem hver og einn tekur fyrir sig og sína. Það er búið að sanna það fyrir löngu að ef þú hugsar ekki um sjálfan þig þá gerir það enginn fyrir þig,“ skrifar Halla enn fremur. 

Hjá Höllu vantar vinnslueldhús með góðu borðplássi og góðu kæli- og frystiplássi. Þau segjast vera til í að vera enn í Reykjanesbæ og líka höfuðborgarsvæðinu. 

Halla María var viðmælandi í Hringferðarhlaðvarpi Morgunblaðsins í síðustu viku.

Þáttinn má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert