Íslendingar hafa mikinn áhuga á forsetakosningunum

Íslendingar hafa mikinn áhuga á kosningum til embættis forseta Íslands.
Íslendingar hafa mikinn áhuga á kosningum til embættis forseta Íslands. mbl.is/Hari

64% Íslendinga hfamikinn áhuga á kosningum til embættis forseta Íslands og 12% lítinn áhuga. Þá hafa Íslendingar almennt meiri áhuga á kosningunum eftir því sem þeir eru eldri auk þess sem þeir sem kysu Katrínu hafa meiri áhuga á kosningunum en þeir sem kysu aðra frambjóðendur. 

Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup sem unnin var dagana 30. apríl til 3. maí.

Spurt var hversu mikinn eða lítinn áhuga fólk hefði á kosningum til embættis forseta Íslands, auk þess sem fólk var spurt hversu mikilvægt eða lítilvægt því þætti embætti forseta Íslands. 

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa meiri áhuga en aðrir 

Niðurstöður þjóðarplússins sýna að Íslendingar hafa mikinn áhuga á kosningunum auk þess sem þær sýna að áhuginn eykst eftir því sem fólk er eldra. Þá hafa íbúar á höfuðborgarsvæðinu meiri áhuga á kosningunum heldur en íbúar landsbyggðarinnar. 

Einnig má sjá að einstaklingar með framhaldsskóla- eða háskólapróf hafa meiri áhuga á kosningunum heldur en fólk með minni menntun að baki. 

Þegar áhuginn er skoðaður eftir stjórnmálaskoðunum má sjá að þau sem kysu Viðreisn ef kosið yrði til Alþingis í dag hafa meiri áhuga á forsetakosningunum en þau sem kysu aðra flokka.

Hér má sjá hversu mikinn eða lítinn áhuga fólk hefur …
Hér má sjá hversu mikinn eða lítinn áhuga fólk hefur á kosningunum eftir aldri, búsetu, menntun og hvaða flokk þau myndu kjósa til Alþingis í dag. Skjáskot/Gallup

Þá var áhuginn jafnframt skoðaður út frá frambjóðendunum og niðurstöðurnar sýna að þau sem kysu Katrínu Jakobsdóttur ef kosið yrði til forseta í dag hafa meiri áhuga á forsetakosningunum en þau sem kysu aðra frambjóðendur. 

Loks sýna niðurstöðurnar að þeir sem telja forsetaembættið mikilvægt hafa meiri áhuga á kosningunum en þau sem telja það lítilvægt. 

Hér má sjá hversu mikinn eða lítinn áhuga fólk hefur …
Hér má sjá hversu mikinn eða lítinn áhuga fólk hefur á kosningunum eftir því hvern þau myndu kjósa til embættis forseta Íslands í dag. Hér má jafnframt sjá hversu mikilvægt eða lítilvægt fólki finnst embættið. Mynd/Gallup

Konur líklegri til að finnast embættið mikilvægt 

Hvað varðar mikilvægi embættisins þá eru landsmenn almennt á því að forsetaembættið sé mikilvægt. Sést það á niðurstöðunum sem sýna að 78% landsmanna finnst embættið mikilvægt á meðan 9% finnst það lítilvægt. 13% segja það þó hvorki mikilvægt né lítilvægt. 

Mikilvægi embættisins var jafnframt skoðað út frá muninum á kynjunum og sýna niðurstöðurnar að konum finnst embættið frekar mikilvægt en körlum. 

Hvað aldurinn varðar þá er fólk á milli þrítugs og fertugs ólíklegast til að finnast embættið mikilvægt og þau sem kysu framsókn ef kosið yrði til Alþingis í dag eru líklegri til að finnast forsetaembættið mikilvægt en þau sem kysu aðra flokka. 

Heildarúrtaksstærð könnunarinnar var 1.749 og þátttökuhlutfall var 49,1%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr viðhorfshópi Gallup. 

Hér má sjá hversu mikilvægt eða lítilvægt fólki finnst embætti …
Hér má sjá hversu mikilvægt eða lítilvægt fólki finnst embætti forseta Íslands eftir kyni, aldri og hvaða flokk þau myndu kjósa til Alþingis í dag. Mynd/Gallup
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert