Enn fæst ekkert uppgefið um hjól og rafhjól

Ívilnun í formi niðurfellingar á virðisaukaskatti vegna kaupa á reiðhjólum, …
Ívilnun í formi niðurfellingar á virðisaukaskatti vegna kaupa á reiðhjólum, rafmagnsreiðhjólum og rafmagnshlaupahjólum hefur verið í gildi frá árinu 2020. Núverandi kerfi dettur niður um áramótin. Virðist ívilnun fyrir virka samgöngumáta færast undir Orkusjóð, en óljóst er nákvæmlega hvaða þýðingu það mun hafa fyrir heildarupphæð sem verður varið í ívilnanir fyrir þessi samgöngutæki. Samsett mynd

Litlar sem engar upplýsingar fást uppgefnar frá umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu um fyrirhugaðar breytingar sem eiga að taka gildi um áramótin, um ívilnanir til stuðnings virkum samgöngutækjum.

Er þar m.a. átt við reiðhjól, rafmagnsreiðhjól og rafmagnshlaupahjól. Miðað við svar ráðuneytisins má áætla að stuðningur vegna orkuskipta almennt muni tæplega helmingast á milli ára.

Umtalsvert hefur verið rætt um breytt fyrirkomulag á ívilnunum vegna kaupa á rafbílum í Morgunblaðinu undanfarna daga og vikur, en um áramótin er einnig gert ráð fyrir að fyrirkomulag ívilnana fyrir kaup á virkum samgöngutækjum taki breytingum.

Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is um ívilnanir fyrir virka samgöngumáta er ítrekað það sem fram hefur komið í umfjöllun Morgunblaðsins um breytingar á ívilnanakerfinu í heild.

Þar segir að á fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028 sé gert ráð fyrir að Orkusjóður fái samtals 30 milljarða til að stuðla að orkuskiptum til viðbótar við grunnfjárveitingu sjóðsins. Verða það 7,5 milljarðar árlega 2024 og 2025, en 5 milljarðar árin 2026-2028.

Stuðningurinn tæplega helmingaður milli ára

Þetta er minni stuðningur til orkuskipa en verið hefur á þessu ári, en þar er gert ráð fyrir að virðisaukaskattsívilnanir vegna hreinorkubíla nemi 10,4 milljörðum og ívilnanir fyrir vistvænni samgöngur nemi 1,98 milljörðum. Þá var tímabundin fjárveiting upp á 1,4 milljarða til að stuðla að orkuskiptum hjá bílaleigum og flutninga- og atvinnubílum.

Samtals er því um að ræða 13,78 milljarða auk 130 milljóna stuðnings við vistvænni almenningssamgöngur. Verður stuðningur vegna orkuskipta samkvæmt þessu 7,5 milljarðar næstu tvö ár á móti tæplega 14 milljörðum í ár, eða aðeins um 54% af upphæð ársins í ár.

Greint hefur verið frá því að hámarksstuðningur fyrir bifreiðar verði 900 þúsund í nýja kerfinu, en hann hefur verið 1,32 milljónir í kerfinu sem nú líður undir lok.

Í svarinu er hins vegar ekki svarað beinum orðum hvort ívilnanir fyrir vistvæna samgöngumáta verði hluti af þessum 7,5 milljörðum og þá hvernig fyrirkomulagið verður, meðal annars um hámarksupphæð ívilnana á hvert tæki. Hins vegar er tekið fram að nýtt styrkjafyrirkomulag verði „kynnt á allra næstu dögum“.

Virðisaukaívilnanir vegna virkra samgöngutækja frá 2020

Árið 2020 tók í gildi bráðabirgðaákvæði þar sem virðisaukaskattur var felldur niður af vistvænum samgöngutækjum eins og reiðhjólum, rafmagnsreiðhjólum og rafmagnshlaupahjólum, eða eins og það er orðað í lögunum:

„Af léttu bifhjóli eða reiðhjóli sem knúið er rafmagni og reiðhjóli með stig – eða sveifarbúnaði ásamt öðrum tegundum reiðhjóla.“ Þetta ákvæði var með sólarlag í árslok 2023.

Var hámarksniðurfelling fyrir rafmagnshjól og rafmagnshlaupahjól 96 þúsund krónur, en fyrir hefðbundin hjól 48 þúsund. Það jafngilti því að hefðbundin hjól væru virðisaukaskattslaus upp að 200 þúsund krónum og rafmagnstækin upp að 400 þúsund krónum.

Úr VSK-kerfinu yfir í Orkusjóð

Þegar fjárlagafrumvarp næsta árs var kynnt kom fram í greinargerð með frumvarpinu að færa ætti ívilnanir úr virðisaukaskattskerfinu og yfir í Orkusjóð. Þar hafa meðal annars ívilnanir vegna orkuskipta vegna hleðslustöðva verið síðustu ár.

„Á næsta ári munu ívilnanir til stuðnings vistvænum samgöngum sömuleiðis breyta um form og hverfa úr virðisaukaskattskerfinu en verða þess í stað útfærðar á gjaldahlið í gegnum Orkusjóð,“ segir í greinargerð frumvarpsins.

Í öðrum kafla greinargerðarinnar er frekar ítrekað að færa eigi ívilnanir fyrir virka samgöngumáta:

„Breytingar á skattastyrkjum á næsta ári má einkum rekja til brottfalls skattastyrkja í VSK-kerfinu sem hafa hvatt til orkuskipta og vistvænna samgangna og hafa verið umfangsmiklir á málefnasviði umhverfismála undanfarin ár. Auk niðurfellingar VSK á vistvæna bíla má nefna stuðning í því formi við kaup heimila á hleðslustöðvum og hjólum og bæði útleigu og endursölu bílaleigubíla, sem falla mun niður um áramótin.“

Lítið er hins vegar komið inn á hvernig útfæra eigi þessar ívilnanir og eru helstu skýringarnar í kringum bifreiðar eins og Morgunblaðið hefur áður greint frá.

Slæmt fyrir hjólreiðaverslanir

Eins og mbl.is greindi frá í sumar kölluðu forsvarsmenn reiðhjólaverslana eftir því að ríkið myndi framlengja gildistíma ívilnunar og að fyrirvarði ákvarðana yrði meiri en þegar ákveðið var að fara í ívilnunina í nóvember 2019.

Var sérstaklega bent á að flestar verslanir þyrftu að senda út pantanir á haustin fyrir komandi sumar og voru þær flestar búnar að senda út pantanir og gátu erfiðlega brugðist við ef þær vildu bæta í pöntunin í ljósi þess að betri söluhorfur voru.

Þegar mbl.is ræddi við Bjarna Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra, við sama tækifæri sagði hann að fyrirkomulagið sem tæki við um áramótin væri ekki endanlega ákveðið, en að hann hallaðist að því að framlengja ætti ívilnunina.

Lítið um svör um fyrirkomulagið

Í lok september beindi mbl.is fyrirspurn til fjármálaráðuneytisins varðandi hvaða fyrirkomulag yrði á þessum ívilnunum. Var vísað á umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið þar sem Orkusjóður fellur undir það ráðuneyti.

Var fyrirspurninni því beint þangað og spurt hvernig fyrirkomulagið yrði. Það er, hvort framlengja ætti fyrri ívilnun eða hvort farið yrði af stað með ívilnanir „útfærðar á gjaldahlið í gegnum Orkusjóð“. Einnig hvernig þessi endurgreiðsla yrði. Hvort verslanir gætu lækkað verð og fengið greitt í gegnum virðisaukaskattsuppgjör, eða hvort það ætti að vera á höndum kaupenda að senda inn endurgreiðslubeiðni fyrir hvert hjól, líkt og gera þarf þegar sótt er um endurgreiðslu á hleðslustöðvum.

Þá var einnig spurt um hámarksstyrk fyrir hvert og eitt tæki og hvort eitthvað heildarhámark yrði fyrir útgreiðslu úr Orkusjóði fyrir vistvæn samgöngutæki eða hvort þau yrðu undir sama heildarþaki og til dæmis bifreiðar, ef slíkt þak væri til staðar. Að lokum var spurt hvenær stæði til að kynna formlega útfærslu á þessum ívilnunum.

Verður „kynnt á allra næstu dögum“

Eins og fyrr segir hefur erfiðlega gengið að fá nokkur svör frá ráðuneytinu um hvernig breytt fyrirkomulag eigi að verða, en það á samkvæmt áformum í fjárlögum að taka gildi eftir tvo mánuði, um áramótin.

Á mánudaginn hafði verið áformað að halda kynningarfund á vegum ráðuneytisins um nýtt fyrirkomulag á ívilnunum og höfðu hagsmunaaðilar verið látnir vita af þeim fundi áður en ákveðið var að fresta honum.

Í dag barst mbl.is loks svar við fyrrgreindri fyrirspurn, en þar segir að nýtt styrkjakerfi verði fyrir orkuskipti í heild sinni eins og hefur verið farið yfir. Má lesa það í heild hér að neðan:

„Í fjármálaáætlun 2024-2028 er gert ráð fyrir að leggja Orkusjóði sérstaklega til 30.000 m.kr. til að stuðla að orkuskiptum til viðbótar við grunnfjárveitingar sjóðsins. Árlegt framlag til þessa verkefnis skv. fjármálaáætlun verður 7.500 m.kr. 2024 og 2025 en lækkar síðan í 5.000 m.kr. 2026 til 2028. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2024 er því gert ráð fyrir sérgreindri 7.500 m.kr. fjárheimild til Orkusjóðs. 

Þetta er nokkuð minni stuðningur til orkuskipta en verið hefur en á þessu ári er gert ráð fyrir að virðisaukaskatts ívilnanir vegna hreinorkubíla muni nema um 10.400 m.kr. og aðrar ívilnanir í skattkerfinu til að stuðla að vistvænni samgöngum nemi 1.980 m.kr. á árinu. Þá er 1.400 ma.kr. tímabundin fjárveiting til Orkusjóðs árið 2023 til að stuðla að orkuskiptum hjá bílaleigum og flutninga- og atvinnubílum. Samtals er framangreindur stuðningur ári 13.780 m.kr. og mun þessi stuðningur falla niður í árslok þegar nýtt styrkjakerfi tekur gildi. Að auki eru 130 m.kr. ætlaðar til að stuðla að vistvænni almenningssamgöngum á vegum innviðaráðuneytisins á yfirstandandi ári og mun sá stuðningur halda áfram á komandi árum þó upphæðir breytist nokkuð milli ára samkvæmt fjármálaáætlun.

Nýtt styrkjakerfi

Í ljósi þess að styrkjum til orkuskipta er ætlað að stuðla sem mestum samdrætti í losun verður þeim varið til að stuðla að orkuskiptum í bílaflotanum með styrkjum til kaupa á hreinorkubílum.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur unnið að gerð styrkjakerfis til að stuðla að orkuskiptum í bílaflotanum. Áhersla er lög á að styrkjakerfið verði einfalt, fyrirsjáanlegt, gagnsætt og tryggi réttlát umskipti. Nýtt styrkjafyrirkomulag verður kynnt á allra næstu dögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert