Enn óljóst hvort verð reiðhjóla hækki um fjórðung á næsta ári

Á fjórða ár hefur virðisaukaskattur verið endurgreiddur vegna kaupa á …
Á fjórða ár hefur virðisaukaskattur verið endurgreiddur vegna kaupa á reiðhjólum og rafmagnsreiðhjólum, en ívilnunin rennur út um áramótin að öllu óbreyttu. mbl.is/Hari

Endurgreiðsla á virðisaukaskatti af nýjum reiðhjólum og rafmagnsreiðhjólum mun að óbreyttu falla niður um áramótin, en um er að ræða allt að 48 þúsund krónur fyrir hvert nýtt reiðhjól og allt að 96 þúsund krónur fyrir hvert nýtt rafmagnsreiðhjól. Gæti verð hjólanna hækkað sem þessu nemur verði endurgreiðslan ekki framlengd.

Forsvarsmenn reiðhjólaverslana kalla eftir því að ríkið framlengi gildistíma ívilnunarinnar og að fyrirvari ákvarðana verði meiri en þegar ívilnunin var ákveðin fyrst fyrir fjórum árum. Frumvarpið var fyrst kynnt mánuði fyrir áramót og samþykkt fyrir jól, en flestar reiðhjólaverslanir senda út pantanir á haustin fyrir komandi sumar. Fjármálaráðherra segir í samtali við mbl.is að endanleg ákvörðun hafi ekki verið tekin í málinu, en að hann hallist að því að framlengja eigi ívilnunina.

Skiptir máli fyrir stóran hóp

Guðmundur Ingi Sigurleifsson, eigandi og framkvæmdastjóri Ofsa hjóls, segir í samtali við mbl.is að rekstraraðilar reiðhjólaverslana hafi ekkert heyrt frá ráðuneytinu um þessi mál. Þá segir hann þessa endurgreiðslu hafa fengið talsvert minni umræðu en endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna kaupa á rafmagnsbílum, en að fyrir stóran hóp landsmanna skipti þetta ekki síður máli, auk þess að vera mun kolefnisminni fararmáta en bíla og rafmagnsbíla og þar með ætti að vera kappsmál fyrir ríkisstjórnina að ýta undir stefnumál sín og orkuskipti með því að framlengja.

Rifjar hann upp að í lok árs 2019 hafi hann og fleiri verslunareigendur heyrt af niðurfellingunni í gegnum fjölmiðla í lok nóvember þegar þeir hafi þegar verið búnir að senda inn pantanir fyrir næsta sumar. Tveimur vikum síðar varð frumvarpið að lögum og þó hann fagni því að málið hafi farið í gegn hafi komið upp ýmisskonar hnökrar við framkvæmdina og útfærslu á uppgjöri við Skattinn þannig að þetta hafi fyrir búðirnar ekki byrjað að virka almennilega fyrr en fyrir einu og hálfu ári síðan.

Lækkuðu verð þegar endurgreiðslan var kynnt

Nefnir hann sem dæmi að allir hafi um leið lækkað verð vegna endurgreiðslunnar, en svo hafi tekið um eitt ár að fá endurgreiðsluna og því hafi búðirnar í raun lánað ríkinu meðan þær höfðu sjálfar fullgreitt virðisaukaskattinn.

Á þessum fjórum árum hafa rafmagnshjól heldur betur rutt sér til rúms hér á landi sem og víðar í heiminum. Guðmundur segir að með þeim opnist fyrir mun stærri hóp að nýta sér hjólreiðar bæði til þess að fara í og úr vinnu og sinna öðrum erindum, en ekki síður til að efla lýðheilsu. Hann segist hafa áhyggjur af því að ef ákveðið verði að draga endurgreiðsluna til baka þá muni búðirnar þurfa að bregðast við með verðhækkunum sem muni leiða til snarbreyttrar kauphegðunar.

„Þetta skiptir hellings máli fyrir hefðbundinn neytenda“

Í dag fullnýtist endurgreiðslan fyrir rafmagnshjól sem kosta um 400 þúsund krónur, en fyrir hefðbundin hjól sem kosta um 200 þúsund krónur. „Þetta skiptir hellings máli fyrir hefðbundinn neytenda,“ segir Guðmundur. „Það er heljarinnar peningur að fá 48 þúsund króna afslátt af hjóli sem kostar 200 þúsund.“

Guðmundur segir jafnframt að ef ívilnunin verði látin renna út sé ríkið í raun að skjóta sig í fótinn. „Þá er verið að hægja á þessum aðgerðum stjórnvalda í orkuskiptum,“ segir hann og bætir við að það myndi sérstaklega hafa mikil áhrif í verðbólguástandi eins og er núna þegar allir séu að reyna að spara sem mestan pening.

Hefði mest áhrif á þá sem síst skyldi

Nefnir hann að áhrifanna myndi sennilega gæta fyrst og fremst fyrir þá hópa sem séu að kaupa sér ódýrari og miðlungsdýr hjól, en það er oft sá hópur sem sé að stíga fyrstu skrefin í hjólakaupum. „Þannig verður dýrara að komast í þessa ódýrari og umhverfisvænni ferðamáta sem hjólin eru,“ segir hann.

Róbert Grétar Pétursson, rekstrarstjóri TRI.
Róbert Grétar Pétursson, rekstrarstjóri TRI. mbl.is/Kristinn Magnússon

Róbert Grétar Pétursson, rekstrarstjóri TRI, tekur undir með Guðmundi og segir að hann finni mikið fyrir því að fjölskyldur hafi undanfarin ár bæði komið til að kaupa hjól til að fækka um bíla eða jafnvel losa sig alveg við bíl og færa sig í bíllausan lífstíl. Segir hann þá algengt að fólk kaupi bæði hjól og hjólavagna til að draga áfram börnin. Þá hafi innreið rafmagnshjólanna orðið til þess að eldra fólk og þeir sem ekki treystu sér til að hjóla í og úr vinnu á hefðbundnum reiðhjólum geti nú auðveldlega farið allra sinna ferða með aðstoð rafmagnsins.

Vill sjá hámarkið duga fyrir 300 og 600 þúsund króna hjól

Róbert nefnir sem dæmi að hefðbundið hjól sem byrjendur velji oft kosti frá 100 til 200 þúsund krónur, en að rafmagnshjólin séu oft frá 400 upp í 550 þúsund krónur. Betri hjól séu svo enn dýrari. Segir hann að fyrir fólk sem sé að reyna að spara og færa sig í umhverfisvænni samgöngumáta skipti gríðarlegu máli hvort að rafmagnshjól kosti 420 þúsund krónur eða 510 þúsund krónur, en það sé um það bil munurinn sem endurgreiðslan skili fyrir þennan verðflokk rafmagnshjóla.

Segir hann að miðað við innkaupaverð reiðhjóla og rafmagnsreiðhjóla sé hámarkið þegar farið að bíta varðandi rafmagnsreiðhjólin og ljóst sé að það muni gera það með hefðbundin reiðhjól líka. „Ég myndi vilja sjá hámarkið fyrir 300-600 þúsund krónu hjól,“ segir hann og bætir við að það myndi líka þýða að fólk gæti fengið sér betri og endingabetri hjól áður en farið sé upp í hámarkið.

Skiptir ríkissjóð ekki máli í stóra samhenginu

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir í samtali við mbl.is að hann sé hallur undir að framlengja þessa ívilnun. „Ég myndi fyrirfram segja að ég hallist frekar að því að framlengja þessa hjólaundanþágu en við höfum ekki tekið endanlega ákvörðun og viljum gera það í samhengi við aðrar breytingar sem verða um áramótin,“ segir hann.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist hallast að því að framlengja ívilnunina.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist hallast að því að framlengja ívilnunina. mbl.is/Árni Sæberg

„Á þessum tíma sem við settum þessa reglu var staðan sú að við vorum komin með verulega miklar ívilnanir fyrir öll önnur ökutæki en rafhjólin og okkur fannst sjálfsagt að þau fengju að fljóta með. Nú eru þessi tímamót að koma upp á sama tíma og við erum að endurskoða ívilnainr fyrir rafbílana. Við erum til dæmis komin með bílalleigubílana inn í orkusjóð. Við höfum boðað að nú sé að renna upp sá tími að rafmagnsbílarnir fari að greiða meira. Við til dæmis afnámum 0% vörugjald og tókum upp lágmarks 5% vörugjald um síðustu áramót,“ bætir Bjarni við.

Hann tekur fram að ríkisstjórnin hafi verið að leggja aukna áherslu á fjölbreyttari ferðamáta. „Hlaupahjólin þekkja allir og rafhjólin eru bara hluti af þessari flóru sem hægt er að nota. Ég hefði talið að það myndi senda jákvæð og rétt skilaboð að halda aftur af opinberum álögum á slík farartæki. Heildartekjur ríkissjóðs að vera ekki með þessar ívilnanir skipta ekki neinu máli í stóra samhenginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert