Orkuskipti þurfa að ganga hraðar

Umtalsverð eftirspurn er frá stórnotkun og hefur raforkuverð í heildsölu …
Umtalsverð eftirspurn er frá stórnotkun og hefur raforkuverð í heildsölu undanfarin tvö ár nálgast verð annars staðar á Norðurlöndum. mbl.is/Sigurður Bogi

Nýtt framboð raforku mætir ekki aukinni eftirspurn fyrr en mögulega eftir þrjú ár. Ef nýja framboðinu er ekki ráðstafað í önnur verkefni gæti það dugað fyrir umfangsmiklum orkuskiptaverkefnum árið 2030.

Þetta kemur fram í nýrri orkuspá Orkustofnunar til 2050.

Umtalsverð eftirspurn er frá stórnotkun og hefur raforkuverð í heildsölu undanfarin tvö ár nálgast verð annars staðar á Norðurlöndum. 

Þótt aukinn vilji sé til að byggja nýja raforkuvinnslu hefur í mörgum tilfellum undirbúningur virkjanakosta og tenging þeirra við flutningskerfið gengið hægt, þrátt fyrir að samþykki í rammaáætlun liggi fyrir. 

Þurfa orkuskipti að ganga hraðar en í grunnspá svo Íslendingar nái að uppfylla skuldbindingar sínar í loftslagsmálum, segir í spánni. 

Þurfum að auka stuðning

Samkvæmt spám verður bein notkun raforku vegna orkuskipta nærri 2,4 TWh og allt að 10 TWh vegna framleiðslu rafeldsneytis árið 2050 til jafns við notkun innanlands og milli landa.

Aukinn stuðning þarf við framleiðslu rafeldsneytis svo hagkvæmni náist eða að lækka raforkuverð umfram vænta þróun.

28 þúsund rafbílar

Í þessum mánuði eru 283 þúsund ökutæki í umferð, þar af 27 þúsund rafbílar í flokki fólksbíla, eitt þúsund rafbílar í flokki sendibíla og 50 rafbílar í flokki vöru- og hópbifreiða. 

Í orkuspánni kemur fram að nýskráningarhlutfall hreinorkubíla aukist. Þá er gert ráð fyrri að notkun jarðefnaeldsneytis í vegasamgöngum fari minnkandi. 

Orkuskipti fólksbíla ganga vel en þyngri ökutæki eru komin skemur.

Fiskiskip hefja notkun vistvænnar orku á næstu árum en í litlu magni. Má búast við að vistvæn orka stærri skipa nái 50% af orkunotkun árið 2050. Minni fiskveiðibátar verða fljótari að ná því marki, eða árið 2040.

Stærsti losunarþátturinn

Jarðefnaeldsneytisnotkun er stærsti einstaki losunarþáttur Íslendinga sem er á beinni ábyrgð Íslands og þurfa orkuskipti innanlands að ganga umtalsvert hraðar en í grunnspá svo markmið og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum náist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka