„Staða orkumála á Íslandi er grafalvarleg“

Í ályktun SI segir að staða orkumála á Íslandi sé …
Í ályktun SI segir að staða orkumála á Íslandi sé grafalvarleg. Mynd úr safni

Einfalda þarf og afnema séríslenskar reglur sem eru íþyngjandi fyrir iðnað, rjúfa þarf kyrrstöðu í uppbyggingu virkjana og efla þarf innviði.

Þetta er meðal þess sem ályktað var um á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins (SI) í dag.

Í tilkynningu SI kemur fram að það sé í þágu samfélagsins alls að íslenskur iðnaður sé samkeppnishæfur og að starfsumhverfi fyrirtækja á Íslandi sé skilvirkt, hagkvæmt og stöðugt.

„Íþyngjandi regluverk dregur úr samkeppnishæfni Íslands. Í nýlegri könnun Maskínu kemur í ljós að 77% aðspurðra í iðnaði telja regluverk meira íþyngjandi nú en fyrir áratug síðan. Gullhúðun á evrópuregluverki er of algeng hér á landi. Snúa þarf við blaðinu í innleiðingu á regluverki EES með því að einfalda eða afnema séríslenskar reglur,“ segir í ályktun þingsins.

Brýnt að ná tökum á hagstjórninni

Brýnt er að ná tökum á hagstjórn landsins svo að verðbólga lækki og aðstæður skapist fyrir lækkun vaxta.

Fram kemur í ályktuninni að eftirspurn í hagkerfinu sé mikil, meðal annars vegna vaxtar ýmissa atvinnugreina og mikillar fólksfjölgunar.

Því eigi það að vera algjört forgangsmál að styrkja framboðshlið hagkerfisins til viðbótar við aðgerðir sem hægja á eftirspurn. Þetta sé hægt að gera með uppbyggingu innviða, þ.m.t. íbúða, auknu framboði af raforku og með því að fjölga iðn- og tækni- og raungreinamenntuðum (STEAM) á vinnumarkaði.

Rjúfa þarf kyrrstöðu í uppbyggingu virkjana

„Staða orkumála á Íslandi er grafalvarleg. Framboð raforku mætir ekki núverandi þörf samfélagsins, m.a. iðnaðar og almennings, en sú staða er þegar orðin dragbítur á verðmætasköpun og farin að hafa neikvæð áhrif á samfélagið allt. Þá eru ótalin fjölmörg uppbyggingaráform um land allt sem eru stöðnuð vegna skorts á raforku.

Þrátt fyrir metnaðarfull markmið um orkuskipti á Íslandi hefur olíunotkun aukist. Rjúfa verður áralanga kyrrstöðu í uppbyggingu virkjana og styrkja raforkuinnviði landsins í þágu öryggis og skilvirkni og bættrar orkunýtingar. Skömmtun og miðstýring mun ekki leysa þann vanda sem blasir við í raforkumálum landsins,“ segir í ályktuninni.

Of fáar íbúðir verið byggðar

Þá kemur fram að uppsöfnuð viðhaldsskuld innviða nemi yfir 400 milljörðum króna, samkvæmt skýrslu SI og Félags ráðgjafarverkfræðinga. Iðnþing skorar því á stjórnvöld að fjárfesta í innviðum landsins í takti við þörf samfélagsins og einfalda regluverk í þágu uppbyggingar.

„Of fáar íbúðir hafa verið byggðar undanfarin ár miðað við þarfir samfélagsins. Framboðsskortur þrýstir verði upp sem ýtir undir verðbólgu og þar með fjármagnskostnað. Breytta hugsun þarf í skipulagsmálum til að taka tillit til hraðrar fjölgunar landsmanna og sveitarfélög þurfa að stórauka framboð af lóðum.

Ríkisvaldið þarf að beita sér af enn meiri krafti til að greiða götu húsnæðisuppbyggingar. Halda þarf áfram að þróa stafrænar lausnir í kringum feril húsnæðisuppbyggingar til að auka skilvirkni og koma böndum á þá upplýsingaóreiðu sem ríkt hefur í málaflokknum.“

Vilja samstarf við einkaaðila um námsgagnagerð

Þá stiklar ályktunin á stöðu iðn- og tæknimenntuðum og segir í ályktuninni að mikill skortur sé á því fólki á vinnumarkað. Um 600-1.000 umsóknum um iðnnám er hafnað á ári hverju og 9.000 sérfræðinga vantar til starfa í hugverkaiðnaði næstu fimm árin.

„Auka þarf fjármagn til iðn- og tæknináms og byggja upp betri aðstöðu til að mennta aukinn fjölda nemenda. Niðurstöður PISA kannana benda til þess að átak þurfi í grunnmenntun með áherslu á lestur og stærðfræði. Með því að opna skólakerfið fyrir menntatækni og samstarfi við einkaaðila um námsgagnagerð er hægt að bæta úr og þurfa stjórnvöld að greiða götu slíkra lausna inn í skólakerfið,“ segir í ályktuninni sem heldur áfram:

„Á fáeinum árum hefur hugverkaiðnaður vaxið mjög og er nú fjórða stoð útflutnings. Með því að skapa áframhaldandi góð skilyrði til fjárfestingar í nýsköpun hér á landi sem leiðir til þess að stórum hugmyndum er hrint í framkvæmd gæti hugverkaiðnaður orðið verðmætasta stoð útflutnings við lok þessa áratugar. Skattahvatar vegna rannsókna og þróunar hafa skipt sköpum við að efla hugverkaiðnað og festa þarf núverandi fyrirkomulag í sessi til að tryggja fyrirsjáanleika og gefa fyrirtækjum möguleika á því að skipuleggja fjárfestingar og starfsemi fram í tímann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert