Spáð 35 m/s í hviðum

mbl.is/Gúna

Veðrið er farið að versna en það hvessir af austri síðdegis í dag með snjókomu og skafrenningi á fjallvegum sunnan- og suðvestanlands en rigningu á láglendi.

Spáð er austan 15-23 m/s og vindhviðum að 35 m/s á Kjalarnesi, undir Hafnarfjalli og undir Eyjafjöllum, einkum frá klukkan 9.00 til tvö í nótt. Rigning á láglendi frá því um klukkan 18.00 og fram undir morgun. Talsverð rigning suðaustanlands í dag og á Austfjörðum í kvöld og fram eftir morgni, segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Hálkublettir eru á höfuðborgarsvæðinu og víða á Reykjanesinu. Hálka og skafrenningur er á Suður- og Suðvesturlandi. Þæfingur er austan við Hellu að Ásmundarstöðum. Á Vesturlandi og Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir.

Það er víða orðið greiðfært á Norðurlandi vestra en hálka er á Þverárfjalli og á nokkrum útvegum. Hálkublettir eru á Vatnsskarði og á Siglufjarðarvegi.

Hálka eða hálkublettir eru víða á Norðausturlandi en greiðfært er í Eyjafirði. Á Austur- og Suðausturlandi er hálka.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu biður fólk um að ganga tryggilega frá lausum hlutum og hreinsa vel frá niðurföllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert