Ekki dregið úr bókunum til Manchester

Tæknideild lögreglunnar í Manchester að störfum við Victoria-lestarstöðina í Manchester, …
Tæknideild lögreglunnar í Manchester að störfum við Victoria-lestarstöðina í Manchester, skammt frá árásarstaðnum. Ekki hefur dregið úr bókunum hjá Icelandair til Manchester í kjölfar árásarinnar. AFP

Engar tafir hafa orðið á flugi um Manchester-flugvöll í dag, farþegar eru þó beðnir um að vera vakandi og láta vita ef þeir sjá eitthvað sem vekur með þeim grunsemdir. Icelandair flýgur til Manchester og segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, starfsfólk lítið hafa orðið vart við að sjálfsvígsárásin í Manchester Arena-tónleikahöllinni í gærkvöldi hafi áhrif á bókanir.

„Það hefur ekki verið mikið um að fólk sé að breyta flugmiðum sínum,“ segir Guðjón.

Icelandair er með beint flug til fleiri staða sem hafa orðið fyrir hryðjuverkaárásum á undanförnum árum, m.a. til Stokkhólms, Parísar og Brussel. Guðjón segir reynslu Icelandair vera þá að árásir á borð við þessa hafi vissulega einhver áhrif, en aðeins til skemmri tíma.

Þannig geti dregið úr bókunum til skamms tíma. „Eins er eitthvað um að fólk hafi viljað breyta ferðum, t.d. seinka þeim eða gera aðrar ráðstafanir en síðan sækir í sama farið,“ segir Guðjón.

Árásin í Nice hafði áhrif

WOW air flýgur ekki til Manchester, en London er meðal vinsælustu áfangastaða flugfélagsins. Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, segir starfsmenn ekki hafa orðið vara við breytingu á bókunum eftir árásina í gær.

„Þetta er það nýskeð,“ segir hún. „Ég get þó sem dæmi nefnt að í kjölfar árásarinnar í Nice síðasta sumar urðum við ekki vör við breytingar í bókunum alveg strax, en því miður þróaðist það þannig að salan dróst saman og í ár fljúgum við ekki til Nice. Árásin þar hafði áhrif á þann áfangastað,“ segir hún og bætir við að vissulega sé þetta ekki að fullu sambærilegt þar sem flugfélagið fljúgi að þessu sinni ekki á þann stað sem fyrir árásinni varð.

„London er hins vegar einn okkar helsti áfangastaður og við höfum ekki séð að bókanir hafi dregist saman þangað. Við ræddum við þjónustuaðila okkar á Gatwick í morgun og þetta hefur ekki haft áhrif á seinkanir á flugi þaðan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert