Þriðjungur barna heima í mótmælaskyni

Ólafsfjörður er í Fjallabyggð og einnig Siglufjörður.
Ólafsfjörður er í Fjallabyggð og einnig Siglufjörður. Sigurður Bogi Sævarsson

Að minnsta kosti þriðjungur grunnskólabarna í Grunnskólanum á Ólafsfirði mun ekki mæta í skólann á morgun. Um 60 foreldrar hafa ákveðið að hafa börn sín heima í mótamælaskyni en næsta haust munu öll grunnskólabörn sem eru í 1. til 6. bekk á Ólafsfirði þurfa að sækja nám til Siglufjarðar. Öll kennsla efsta stigs nemenda í 7. til 10. bekkjar fer fram á Ólafsfirði. Vísir greindi fyrsta frá. 

Börnin þurfa að ferðast með rútu í 17 km leið eða um 15 til 20 mínútur. 

Sveitarfélagið Fjallabyggð samþykkti tillögu fræðslu- og frístundanefndar þess efnis nýverið. 

„Okkur finnst ekki gott að börnin geti ekki sótt skóla í sínum kjarna. Þrátt fyrir að þetta er sameiginlegt sveitarfélag þá er grunnskólinn hjarta í hverju bæjarfélagi. Þegar maður elst upp við það að geta hlaupið út í skóla þá finnst manni þetta vera orðinn langur ferðatími,“ segir Hildur Gyða Ríkharðsdóttir ein þeirra sem stendur að mótmælunum.

Foreldrarnir hyggjast mótmæla í fyrstu með þessum hætti og sjá hvort ákvörðunin verði ekki endurskoðuð. Áformin voru kynnt nýverið á opnum fundi. Þar kom meðal annars fram að fyrirkomulagið er sagt stuðla að betri námsárangri, að sögn Hildar. Hún kallar eftir frekari umræðu um breytingarnar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert