Ísraelar að „tapa áróðursstríðinu“ á Gasa

Donald Trump á fundi í ríkinu Wisconsin fyrr í vikunni.
Donald Trump á fundi í ríkinu Wisconsin fyrr í vikunni. AFP/Scott Olson

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, segir Ísraela vera að „tapa áróðursstríðinu” á Gasasvæðinu vegna myndanna sem berast þaðan.

„Á hverju kvöldi birta þeir myndir af húsum að hrynja. Þeir ættu ekki að birta þannig myndir,” sagði Trump í þættinum The Hugh Hewitt Show, í gær.

„Þess vegna eru þeir að tapa áróðursstríðinu,” bætti hann við um Ísraela.

Reykur yfir Khan Yunis á Gasasvæðinu eftir loftárás Ísraela fyrr …
Reykur yfir Khan Yunis á Gasasvæðinu eftir loftárás Ísraela fyrr á árinu. AFP/Said Khatib

Stríðið er það mannskæðasta frá upphafi á Gasasvæðinu. Það hófst með árás Hamas-samtakanna á Ísrael 7. október þar sem 1.170 Ísraelar og ríkisborgarar annarra landa, flestir almennir borgarar, voru drepnir, samkvæmt tölum AFP sem byggja á opinberum tölum Ísraela.

Palestínumenn tóku jafnframt 250 gísla og eru um 130 þeirra enn á Gasasvæðinu. Þar af eru 34 látnir, að sögn Ísraelshers.

Að minnsta kosti 33.037 manns hafa verið drepnir í hefndaraðgerð Ísraela, að sögn heilbrigðisráðuneytisins á Gasasvæðinu, sem Hamas-samtökin reka. Sameinuðu þjóðirnar vara við hungursneyð á svæðinu.

„Þið verðið að ljúka þessu og þið verðið að ná eðlilegu ástandi aftur,” sagði Trump. „Þið verðið að ná sigri og þetta er að taka langan tíma.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert