Hlýjasti febrúar frá upphafi vestanhafs

Íbúar í borginni Saint Louis nutu þess að sitja úti …
Íbúar í borginni Saint Louis nutu þess að sitja úti við veitingastaði í borginni. AFP/Miguel Medina

Hitamet febrúarmánaðar voru slegin víðs vegar um Bandaríkin og Kanada í vikunni þegar hitinn fór upp undir 30 gráður. Það var því sumarhiti víða þótt enn séu þrjár vikur eftir af vetrinum á þessum slóðum. 

Í borginni Saint Louis, í ríkinu Missouri fór hitinn í 30 gráður í gær, en það er hæsta hitastig sem hefur mælst þar í borg í febrúar.

Að sögn sérfræðinga er fyrirbærinu El Nino um að kenna, auk loftslagsbreytinga. Þó er ekki útlit fyrir að sumarhitinn muni halda áfram þar sem veðurfræðingar spá því að hitastigið muni fara hratt niður aftur. 

Hitastigið fljótt að breytast í Chicago

Þá náði hitinn rúmum tuttugu stigum í Chicago í gær en það var fljótt að breytast þegar kaldur vindur barst yfir borgina í morgun, samkvæmt National Weather Service. Veðurstofan varaði við því að vindhraði gæti farið yfir allt að fimmtíu stig í gær þegar kaldur vindur fór um borgina. 

Þegar NWS tók saman veðrið í Chicago síðasta sólarhringinn blasti við að þar hefði verið í senn vetur, sumar, vor og haust á einum sólarhring. 

Búist er við svipuðum hitasveiflum um mitt landið á næstu dögum, sem hugsanlega gengur yfir með stormi, hvirfilbyljum og hagléli. 

Þá var hitamet jafnframt slegið í Kanada þar sem hitinn fór í 15 gráður í gær. 

Janúar sá hlýjasti í manna minnum

Janúar var hlýjasti janúarmánuður í manna minnum, í heiminum öllum, að sögn banda­rísku haf- og lofts­lags­stofn­un­ar­inn­ar NOAA og Kópernikusar, loftslagsstofnunar ESB. 

Auk þess virðist febrúar ætla að verða sá hlýjasti í heiminum frá upphafi þrátt fyrir yfirvofandi kulda, skrifaði loftslagsvísindamaðurinn Zeke Hausfather á X. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert