Læknar án landamæra ráku 19 starfsmenn

Starfsmenn samtakanna Læknar án landamæra að störfum.
Starfsmenn samtakanna Læknar án landamæra að störfum. AFP

Frönsku hjálparsamtökin Læknar án landamæra, Médecins Sans Frontières, segjast hafa brugðist við 24 tilkynningum um kynferðislegt ofbeldi og áreitni á síðasta ári. Nítján manns var sagt upp störfum í kjölfarið. 

Samtökin segjast hafa fengið 146 kvartanir eða ábendingar í fyrra og hafi 24 mál verið talin tengjast kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. 

Um 40 þúsund manns starfa á vegum Lækna án landamæra um allan heim hverju sinni, aðallega á stríðshrjáðum svæðum. Samtökin eru því ein þau stærstu sinnar tegundar í heiminum.

Á síðustu dögum hafa verið sagðar fréttir af því að starfsmenn góðgerðarsamtakanna Oxfam hafa orðið uppvísir að því að misnota aðstöðu sína við störf sín á stríðshrjáðum svæðum og hamfarasvæðum. Voru níu manns annað hvort reknir úr starfi eða þeir beðnir að segja upp vegna ásakana um vændiskaup á Haítí árið 2010. 

Síðustu daga hafa fyrrverandi starfsmenn samtakanna sagt yfirstjórn þeirra hafa vitað af kvörtunum vegna mannanna áður en þeir fengu stöður sínar á Haítí. Hafi að minnsta kosti einn þeirra  orðið uppvís að svipaðri hegðun við störf í Afríkuríkinu Tjad. Stjórnendur Oxfam neita að hafa hylmt yfir með brotamönnunum.

Priti Patel, fyrrverandi ráðherra þróunarmála í Bretlandi, seg­ir að ásak­an­ir á hend­ur starfs­mönn­um Oxfam séu aðeins „topp­ur­inn á ís­jak­an­um“. Eftirmaður hans í starfi segir að öll góðgerðarsamtök verði að taka af skarið og gera hreint fyrir sínum dyrum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert