Eru að vakta stöðuna í bólusetningum barna

Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir ráðuneyti sitt fylgjast vel með þátt­töka barna á Íslandi í al­menn­um bólu­setn­ing­um, enda sé tilefni til. Hann segir ekki hafa komið til greina að setja á bólusetningarskyldu hér á landi. 

„Ég held að við séum nú með það góða bólusetningarstöðu að það sé kannski engin ástæða til þess,“ segir Willum

Fyrr í vikunni kom fram á fundi Unicef, Control­ant og embætti land­lækn­is að þátt­taka barna á Íslandi í al­menn­um bólu­setn­ing­um hef­ur dreg­ist sam­an um allt að 6% á ár­un­um 2018 til 2022.

Mikilvægt að vera á vaktinni

Spurður hvort ráðuneyti hans sé að fylgjast með þessum breytingum segir Willum að sífellt sé verið að vakta stöðuna og að mikilvægt sé að vera á vaktinni gagnvart þróun í bólusetningarþátttöku. 

Hann bætir þó við að á Íslandi hafi verið mjög góð staða í gegnum tíðina og að hér hafi gengið vel að ná tökum á fjölmörgum sjúkdómum, þó að upp komi smit inn á milli. 

„Það eru vísbendingar um að það hafi aðeins dregið úr í hlutfallinu þannig það er ástæða til fara vel yfir það. Það hafa komið upp smit inn á milli og það er mjög þarft að taka umræðuna reglubundið.“

Spurður út í aukið vantraust til bólusetninga segir hann hafa orðið var við þá almennu umræðu en leggur áherslu á að mikilvægt sé að halda til haga að bólusetningar við helstu sjúkdómum og bólusetningar barna hafi sannað gildi sitt. Því sé því mjög mikilvægt að halda uppi góðri stöðu. 

Engin ástæða til að skylda bólusetningar

Willum segir ekki ástæðu til að hafa miklar áhyggjur. Hann bætir þó við að það sé „algjörlega ástæða til að vakta þetta mjög vel og nota tækifærið, grípa inn í og reyna að viðhalda hér góðri bólusetningarstöðu“.

Aðspurður segir hann bólusetningarstöðuna á Íslandi vera það góða að engin ástæða sé til að skoða bólusetningarskyldu.

„Okkur hefur tekist mjög vel til bæði með fræðslu, rannsóknum og staðfestingu á því hvaða árangi við höfum náð.

Margir af þessum sjúkdómum geta verið mjög alvarlegir og lífshættulegir og það hefur náðst mjög mikill árangur, það er alveg óumdeilt.“

Hann bætir við að vísbendingar séu til staðar um að þurfi að hækka bólusetningarhlutfall í einhverjum tilfellum, til að mynda í bólusetningum barna gegn kíghósta.

Þetta á nú allt að vera viðráðanlegt en við fylgjumst með og vöktum stöðuna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert