Mótmælaganga Ku Klux Klan í Charlottesville

Um 50 stuðningsmenn Ku Klux Klan héldu mótmælagöngu í lögreglufylgd í borginni Charlottesville í Virginíu í Bandaríkjunum á laugardag. Í henni mótmæltu stuðningsmennirnir því að borgaryfirvöld ætli að fjarlæga styttu af Robert E. Lee, hershöfðingja Suðurríkjanna í bandaríska borgarastríðinu.

Talsmenn Ku Klux Klan telja að með fjarlægingu styttunnar séu stjórnvöld að eyða mikilvægri sögu Suðurríkjanna. Mun fleiri mættu til að mótmæla göngu samtakanna en til að taka þátt í henni. Nokkrir voru handteknir.

Ku Klux Klan eru samtök í Bandaríkjunum sem halda fram yfirburðum hvíta kynstofnsins. Þau eru þekkt fyrir hatur sitt á blökkumönnum, gyðingum og hinsegin fólki, sem og fyrirlitningu á ýmsum öðrum minnihlutahópum.

Bandaríska borgarastríðið eða þrælastríðið, eins og það er stundum nefnt, stóð frá 1861 til 1865. Stríðið var á milli sambandsstjórnar Bandaríkjanna og ellefu suðurríkja þess sem lýstu yfir sjálfstæði. Hershöfðingi Suðuríkjanna, Robert Edward Lee (1807 –1870), stýrði herjum þeirra í Norður Virginíu allt frá árinu 1862 til uppgjafar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert