Boeing fær skell á hlutabréfamarkaði

Boeing 737 Max 9 flugvélar Alaska Airlines og nokkurra annarra …
Boeing 737 Max 9 flugvélar Alaska Airlines og nokkurra annarra flugfélaga voru kyrrsettar eftir atvikið. Getty Images/AFP/Stephen Brashear

Hlutabréf í bandaríska flugvélaframleiðandanum Boeing lækkuðu talsvert í dag eftir opnun markaða í Bandaríkjunum. Nam lækkunin fyrst um 9%, áður en þau fóru örlítið að færast upp á við á ný, en þegar þetta er skrifað nemur lækkun dagsins um 8%.

Lækkunina má rekja til atviks á föstudaginn þegar Boeing 737 Max 9 vél flugfélagsins Alaska Airlines þurfti að nauðlenda eftir að hleri í farþegarýminu gaf sig þegar vélin var nýlega komin í loftið þannig að opið var úr farþegarýminu og út. Lenti vélin fljótlega í kjölfarið og sakaði engan.

Bandarísk flugmálayfirvöld ákváðu eftir þetta atvik að kyrrsetja 171 Boeing 737 Max 9 vélar og kröfðust þau tafarlausar skoðunar á vélunum.

Fjárfestar virðast hafa tekið fréttum af þessu atviki alvarlega, en flugvélaframleiðandinn fór í gegnum nokkuð erfiða tíma í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa á 737 Max flugvélum árin 2018 og 2019.

Dow Jones-hlutabréfavísitalan í Bandaríkjunum lækkaði um 0,4% í fyrstu viðskiptum dagsins og var það að stórum hluta rekið til lækkunar Boeing.

Hlutabréf í nokkrum flugfélögum hafa einnig lækkað í dag. Þannig hafa bréf Spirit lækkað um 15% og í Alaska Airlines um 4,2%.

Icelandair notast við Boeing 737 Max 9 vélar, en ekki þótti ástæða til að kyrrsetja þær. Tengist atvikið ekki búnaði sem er til staðar í vélum flugfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka