Leigutekjur Heimavalla aukast milli ára

Leigutekjur Heimavalla jukust um tæpar 600 milljónir, úr 3,1 milljarði …
Leigutekjur Heimavalla jukust um tæpar 600 milljónir, úr 3,1 milljarði í tæpa 3,7 milljarða sem er 19% vöxtur frá fyrra ári. mbl/Arnþór Birkisson

Fasteignafélagið Heimavellir hagnaðist um 48 milljónir króna á árinu 2018 samanborið við 2,7 milljarða króna árið áður. Leigutekjur félagsins jukust um tæpar 600 milljónir, úr 3,1 milljarði í tæpa 3,7 milljarða sem er 19% vöxtur frá fyrra ári. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Heildarfjöldi íbúða í árslok 2018 var 1.892 sem er fækkun um 76 íbúðir frá fyrra ári eða 4%. Félagið hefur tryggt sér kaup á um 200 íbúðum sem verða afhentar á árinu 2019 og 2020 og er auk þess í viðræðum við Reykjavíkurborg um lóðarvilyrði vegna 100 smáíbúða á Veðurstofuhæðinni.  

Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og söluhagnað nam 2,2 milljörðum króna eða 61% af veltu, samanborið við 1,6 milljarða og 52% árið 2017. Félagið seldi eignir fyrir 6,2 milljarða króna á árinu og var söluhagnaður vegna þeirra 496 milljónir króna eða 8% af bókvirði eigna.

Matsbreyting eignasafnsins nam 111 milljónum króna á árinu 2018 í samanburði 3.688 milljónir króna árið 2017. Það ár kom mikið af nýjum eignum í reksturinn sem svo aftur bætir hann verulega á árinu 2018.   

Hrein fjármagnsgjöld eru 2.798 milljónir króna en þar af eru verðbætur 863 milljónir króna og hækka nokkuð milli ára. Rekstrarhagnaður félagsins á árinu 2018 tekur mið af ofangreindu og var 48 milljónir króna í samanburði við 2.716 milljónir króna árið á undan.

Eigið fé var 18,8 milljarðar króna í árslok 2018, samanborið við 17,6 milljarða í árslok 2017 og var eiginfjárhlutfall félagsins 33%.

Guðbrandur Sigurðsson framkvæmdastjóri segir að miklar og góðar breytingar séu á rekstri félagsins milli ára. „Endurskipulagning á eignasafni félagsins hefur gengið töluvert betur en við gerðum ráð fyrir í upphafi síðasta árs. Samtals seldi félagið 210 íbúðir fyrir 6,2 milljarða króna og það sem af er árinu 2019 er félagið búið að samþykkja kauptilboð og selja fasteignir fyrir 2,8 milljarða króna. Þessi eignasala mun skila félaginu sterkri lausafjárstöðu þegar líður á árið 2019,“ er haft eftir Guðbrandi í tilkynningu, en hann mun láta af störfum í mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK