Tilfinningaríkur Guðmundur: Mjög niðrandi ummæli

Guðmundur Guðmundsson á hliðarlínunni í dag.
Guðmundur Guðmundsson á hliðarlínunni í dag. AFP

„Ég er mjög stoltur af liðinu,“ sagði Guðmundur Guðmundsson landsliðþjálfari Íslands í handbolta í samtali við RÚV eftir naumt 26:28-tap fyrir Frakklandi á HM karla í handbolta í Egyptalandi í dag. Úrslitin þýða að Ísland á ekki lengur möguleika á að komast í átta liða úrslit mótsins. Þrátt fyrir það var Guðmundur stoltur af sínu liði. 

„Það var stórkostleg barátta hjá liðinu og ofboðslegur karakter og vilji og það var upplifun fyrir mig í kvöld. Ég hef ekki oft gengið í gegnum mót svona þar sem varnarleikurinn hefur verið stórkostlegur þrátt fyrir þrjú töp á móti mjög góðum liðum. Mér fannst við fara mjög vel út úr þessum leik í vörn og sókn.“

Guðmundur fórnar höndum í dag.
Guðmundur fórnar höndum í dag. AFP

Guðmundur tók síðan til máls í tæpar þrjár mínútur þar sem hann varði sitt lið af mikilli innlifun og eldmóð og lét á sama tíma sérfræðinga RÚV á mótinu heyra það, en þar hafa fyrrverandi landsliðsmaðurinn Logi Geirsson og Arnar Pétursson þjálfari kvennalandsliðsins verið gestir Kristjönu Arnarsdóttur. 

„Það er furðulegt að upplifa það að fara á stórmót þegar það vantar þrjá lykilleikmenn og svo fjóra í framhaldinu. Þetta er svipað og við værum með norska landsliðið án Sander Sagosen, án Christian O'Sullivan og án Harald Reinkind. Svo bætir enn einn miðjumaður við; Haukur Þrastarson. Þannig förum við inn í mótið. Svo er okkur ýtt inn í hlutverk sem við erum ekki með mannskapinn til að klára. Það er algjörlega hræðilegt að horfa og heyra hvernig sérfræðingar RÚV tjá sig um þetta á niðrandi hátt. Þeir tala um eftir leikinn á móti Sviss að liðið sé ráðalaust sem eru mjög niðrandi ummæli sem hafa farið mjög illa í hópinn og mig. Mér finnst þetta ekki eiga rétt á sér,“ sagði Guðmundur og hélt svo áfram.

Algjörlega óásættanlegt

„Staðreyndirnar eru þessar; það vantar fjóra mjög sterka pósta í liðið því Alexander er nánast kýldur út á móti Portúgal. Það eru þrír leikmenn í liðinu núna á sínu fyrsta stórmóti. Þar eru þrír leikmenn í þessu liði núna sem voru í æfingabanni í rúma tvo mánuði og gátu ekki spilað handbolta í rúma þrjá mánuði. Við þessar aðstæður er það ekki einfalt verkefni að koma hingað og ætla sér enn meira. Þetta eru staðreyndir á borðinu.

Guðmundur var líflegur á hlíðarlínunni í dag.
Guðmundur var líflegur á hlíðarlínunni í dag. AFP

Það þarf að vera vitrænni umræða um þetta og ekki talað í einhverjum fyrirsögnum. Það er algjörlega óásættanlegt. Það er allt í lagi að gagnrýna en gagnrýnin þarf að vera fagleg og hún þarf að vera sanngjörn. Þá erum við alveg tilbúnir að ræða hlutina en það hefur mér alls ekki fundist vera og það er eitthvað sem ég sætti mig ekki við. Ég er ótrúlega stoltur af þessu liði og þessari frammistöðu,“ sagði Guðmundur sem síðan nafngreindi Loga og gagnrýndi hans ummæli. 

„Það er búið að gagnrýna mig, m.a. af Loga Geirssyni, í þrjú ár fyrir þessa vörn. Ég er búinn að heyra það ítrekað að við eigum að gera eitthvað annað. Auðvitað hlusta ég ekki á slíkt blaður. Þessi vörn er búin að vera þrjú ár í mótun og þannig er vinnan á bak við þetta og það verða menn að skilja. Það þarf að gagnrýna liðið að sanngirni og einhverju viti og það hefur ekki verið staðan það sem af er af þessu móti,“ sagði tilfinningaríkur Guðmundur Guðmundsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert