Setti heimsmet en Vésteinn er ósáttur

Vésteinn Hafsteinsson náði frábærum árangri með sænsku kringlukastarana Ståhl og …
Vésteinn Hafsteinsson náði frábærum árangri með sænsku kringlukastarana Ståhl og Pettersson. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Vésteinn Hafsteinsson, frjálsíþróttaþjálfarinn reyndi og núverandi afreksstjóri Íþróttasambands Íslands, er ósáttur við heimsmet í kringlukasti karla sem Litháinn Mykolas Alekna setti í Oklahoma í gær.

Alekna kastaði þar 74,35 metra og sló 38 ára gamalt heimsmet sem Jürgen Schult átti frá árinu 1986.

Aðstæður í Oklahoma voru mjög hagstæðar fyrir kringlukast en þar var talsverður vindur. Aftonbladet í Svíþjóð skýrir frá því að einungis kastararnir og nokkrir dómarar hafi verið á vellinum.

Vésteinn var þjálfari bestu kringlukastara Svía, Daniel Ståhl og Simon Pettersson sem hafa verið í fremstu röð í heiminum undanfarin ár og Aftonbladet leitaði til hans með viðbrögð við heimsmetinu.

„Með fullri virðingu fyrir Alekna, þá hef ég alltaf verið á móti því að svona keppnir séu haldnar. Með því eru menn að skjóta sjálfa sig í fótinn. Þarna er reynt að ná sem lengstum köstum í miklum vindi en svo þegar komið er á stórmótin eru köstin miklu styttri. Ég hef sagt undanfarin 20 ár að þetta sé rangt,“ segir Vésteinn við Aftonbladet.

„Ég hef aldrei verið hrifinn af þessum mótum og þegar ég þjálfaði Daniel og Simon fórum við aldrei á svona mót. Ég lít á sigurkastið hjá Daniel Ståhl á heimsmeistaramótinu í Búdapest sem meira afrek en þetta kast. Ekki bara vegna þess að Daniel átti í hlut en vegna þess hvernig hann fór að því. Hann náði besta kasti nokkru sinni á heimsmeistaramóti í síðasta kasti,“ segir Vésteinn.

Enginn mun kasta 74 metra í París

Hann vill að Alþjóða frjálsíþróttasambandið breyti reglum sínum til að koma í veg fyrir mót af þessu tagi.

„Ég vil ekki vera neikvæður og ég er ekki að gagnrýna Alekna. Hann er stærsti kringlukastari sem ég hef séð og hann var fimm metrum á undan öllum öðrum. En enginn mun kasta kringlunni 74 metra á Ólympíuleikunum í París í sumar. Og ég er ekkert hissa á því að heimsmet hafi verið sett við þessar aðstæður. Ég sá í hvað stefndi þegar Perez kastaði 73,09 metra í kvennakeppninni deginum áður,“ segir Vésteinn við Aftonbladet.

„Það er rangt þegar einhverjir áhugamenn stilla upp röð af mótum á einni viku á stað þar sem aðstæður eru fullkomnar. Þangað mæta allir til að kasta sem lengst, lengur en nokkur getur gert á meistaramóti. Það verður leiðigjarnt til lengri tíma.

Afrek eins og þetta ættu að koma við aðrar aðstæður og þegar allur heimurinn fylgist með. Núna bættu allir sig um 5-10 prósent og þess vegna tel ég að setja verði reglur um svona mót,“ segir Vésteinn Hafsteinsson.

Aftonbladet bendir á að af fjórtán af þeim kringlukösturum sem nú hafa náð ólympíulágmarkinu fyrir leikana í París í sumar, sem er 67,20 metrar, hafi átta náð sínu besta kasti á árinu í Oklahoma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert