Upp í B-deild eftir tólf ára fjarveru

Hermann Hreiðarsson lék með Portsmouth við góðan orðstír og varð …
Hermann Hreiðarsson lék með Portsmouth við góðan orðstír og varð bikarmeistari. Eggert Jóhannesson

Karlalið enska knattspyrnufélagsins Portsmouth tryggði sér í gærkvöldi sigur í ensku C-deildinni og um leið sæti í B-deildinni á næsta tímabili með því að leggja Barnsley að velli, 3:2, á heimavelli.

Portsmouth er með 94 stig í efsta sætinu, átta stigum fyrir ofan Derby County í öðru sæti þegar aðeins tvær umferðir eru óleiknar í deildinni.

Liðið er þar með komið upp í næstefstu deild á Englandi í fyrsta sinn í tólf ár, en árin eftir að Portsmouth féll úr ensku úrvalsdeildinni árið 2010 hafa verið mögur og félagið fór á skömmum tíma niður í D-deildina.

Efstu tvö lið C-deildarinnar fara beint upp í B-deild á meðan liðin í þriðja til sjötta sæti fara í umspil um eitt laust sæti til viðbótar.

Derby er í öðru sæti með 86 stig, þar á eftir koma Jón Daði Böðvarsson og félagar hjá Bolton Wanderers með 83 stig og þá kemur Peterborough United í fjórða sæti með 80 stig. Öll eiga þau möguleika á að ná öðru sætinu og fara þannig beint upp. Derby og Bolton eiga tvo leiki eftir og Peterborough þrjá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert