Heimsmeistari fallinn frá

Bernd Hölzenbein lék bæði úrslitaleiki á HM og EM.
Bernd Hölzenbein lék bæði úrslitaleiki á HM og EM.

Bernd Hölzenbein, einn af heimsmeisturum Vestur-Þjóðverja í knattspyrnu árið 1974, er látinn, 78 ára að aldri.

Hölzenbein lék með Eintracht Frankfurt á árunum 1967 til 1981 og skoraði 160 mörk í 420 leikjum fyrir félagið í efstu deild, en Eintracht skýrði frá andláti hans í morgun.

Hann lauk síðan ferlinum í Bandaríkjunum þar sem hann spilaði í fjögur ár, m.a. með Fort Lauderdale Strikers.

Hölzenbein var í byrjunarliði Vestur-Þýskalands í úrslitaleik heimsmeistaramótsins 1974, sem vinstri kantmaður, þegar liðið sigraði Hollendinga, 2:1.

Þá skoraði hann annað marka Vestur-Þjóðverja í úrslitaleik EM árið 1976, gegn Tékkóslóvakíu, en sá leikur endaði 2:2 og Tékkar urðu Evrópumeistarar eftir vítaspyrnukeppni.

Hann lék 40 landsleiki og skoraði fimm mörk á árunum 1973 til 1978.

Með Eintracht vann Hölzenbein UEFA-bikarinn árið 1980 og varð þrisvar bikarmeistari með félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert