Neikvæð sýni í Árbænum

Leikmaður úr kvennaliðið Fylkis greindist með kórónuveiruna á dögunum.
Leikmaður úr kvennaliðið Fylkis greindist með kórónuveiruna á dögunum. mblis/Eggert Jóhannesson

Leikmaður kvennaliðs Fylkis í knattspyrnu greindist með kórónuveiruna á sunnudaginn síðasta. Þetta var annar leikmaðurinn sem smitast af veirunni í úrvalsdeild kvenna, Pepsi Max-deildinni, á stuttum tíma en leikmaður Breiðabliks greindist einnig með veiruna fyrir tæpri viku og er allt lið og þjálfarateymi Blika í sóttkví þessa stundina.

Leikmaðurinn sem greindist í liði Fylkis var gestur í útskriftarveislu þar sem leikmaður úr karlaliði Stjörnunnar smitaðist einnig af veirunni. Þá þurfti leikmaður úr karlaliði Breiðabliks einnig að fara í sóttkví eftir að hafa umgengist leikmann kvennaliðs Breiðabliks sem hafði dvalið við nám í Bandaríkjunum áður en hún greindist með veiruna.

Fylkir sendi frá sér fréttatilkynningu á Facebook í dag þar sem fram kemur að allir leikmenn kvennaliðs Fylkis hafi farið í sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu á dögunum og þar hafi öll sýni verið neikvæð. Liðið verður hins vegar áfram í sóttkví næstu daga. Þá hefur æfingasvæði félagsins, sem og Fylkishöllin, verið sótthreinsað.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert