Atli Sveinn og Ólafur ráðnir þjálfarar Fylkis

Atli Sveinn Þórarinsson, Ólafur Stígsson og Ólafur Ingi Skúlason handsala …
Atli Sveinn Þórarinsson, Ólafur Stígsson og Ólafur Ingi Skúlason handsala samninginn við Fylki í dag. mbl.is/Guðmundur Hilmarsson

Atli Sveinn Þórarinsson og Ólafur Stígsson voru nú í hádeginu kynntir til leiks sem nýir þjálfarar karlaliðs Fylkis í knattspyrnu.

Þeir taka við þjálfun Árbæjarliðsins af Helga Sigurðssyni, sem stýrði Fylkisliðinu í þrjú ár en hann var á dögunum ráðinn þjálfari ÍBV.

Atli er 39 ára gam­all en hann lagði skóna á hill­una árið 2015. Hann lék 308 deild­ar­leiki á Íslandi og í Svíþjóð en hann á að baki far­sæl­an fer­il með KA, Örgryte og Val þar sem hann varð Íslands­meist­ari árið 2007. Atli Sveinn þjálfaði 3. deild­arlið Dal­vík­ur/​Reyn­is árið 2016, var síðan með 2. flokk KA og hef­ur tvö und­an­far­in ár verið yfirþjálf­ari yngri flokka hjá Stjörn­unni.

Ólafur var aðstoðarmaður Helga öll þrjú árin sem hann var við stjórnvölinn en Ólafur er uppalinn Fylkismaður sem lék með liðinu í mörg ár. Hann lék um tíma með Val og þá á hann 9 leiki að baki með A-landsliðinu.

Ólafur Ingi Skúlason verður aðstoðarmaður þeirra Atla og Ólafs en Ólafur mun spila áfram með liðinu. Hann sneri aftur í Árbæinn í fyrra eftir að hafa spilað sem atvinnumaður frá árinu 2005 á Englandi, Svíþjóð, Danmörku, Belgíu og Tyrklandi. Hann lagði landsliðsskóna á hilluna í fyrra en Ólafur lék 36 landsleiki.

Samningar þeirra Atla Sveins og Ólafanna gilda til tveggja ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert