Vissi stundum ekki hvort þeir væru að styðja Kína eða okkur

Íslenska liðið á æfingu í Kína.
Íslenska liðið á æfingu í Kína. Ljósmynd/Wu Zhi Zhao

„Það er gott að koma til Kína, vinna þá 2:0 á þeirra heimavelli og komast í úrslit eftir einn leik. Það er bara svakalegt,“ sagði Björn Daníel Sverrisson, landsliðsmaður í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir sigurinn á Kína þar í landi.

 Sjá frétt mbl.is: Ísland spil­ar til úr­slita í Kína

„Mér fannst við gera þetta ágætlega, en þetta var svolítið erfitt í fyrri hálfleik þar sem var mikið um hlaup. Mér fannst við gera þetta töluvert betur í seinni hálfleiknum,“ sagði Björn Daníel, sem segir að það hafi komið vel í ljós í byrjun leiks að íslenska liðið hefði ekki spilað mikið saman áður.

„Kínverjarnir voru búnir að vera saman í tvær vikur fyrir þennan leik, en við í tvo daga. Svo það tók smá tíma að læra inn á hvern annan. En eftir því sem leið á leikinn náðum við betri sambandi og skoruðum tvö flott mörk. Við hefðum getað skorað fleiri en að halda hreinu er nokkuð gott,“ sagði Björn Daníel.

Hann lagði sjálfur upp fyrra markið fyrir Kjartan Henry Finnbogason, en hann sneri þá laglega í teignum og náði flottu skoti á markið sem var varið fyrir fætur Kjartans. Hélt Björn að hann væri að skora?

„Já, það hefði verið sætt ef þetta hefði verið fyrsta landsliðsmarkið. En ég tek stoðsendingunni bara fagnandi, þó þetta hefði verið sætt eftir þennan snúning,“ sagði Björn Daníel.

Björn Daníel Sverrisson.
Björn Daníel Sverrisson. Ljósmynd/Heimasíða AGF

Mikil mengun í loftinu

Tæplega 60 þúsund manns voru á vellinum og var stemningin mikil. Það er vel fylgst með íslenska liðinu og kom Björn Daníel með áhugaverðan punkt.

„Jú, það var nokkuð góð stemning hjá áhorfendum og ég vissi stundum ekki hvort þeir væru að styðja Kína eða okkur. Þegar við fengum færi heyrðum við oft eins og þeir væru alveg miður sín að við hefðum ekki skorað,“ sagði Björn Daníel.

Hann sagði aðstæður hafa verið nokkuð góðar. Fyrir utan eitt.

„Það var töluvert erfitt að spila hérna, mikil mengun í loftinu og maður finnur það þegar farið er að hlaupa. En Kínverjarnir eru flottir, ég er ánægður með þá,“ sagði Björn Daníel, en tekið hefur verið á móti íslenska liðinu eins og best væri á kosið.

Myndi ekki slá hendinni á móti gulli og grænum skógum

„Þetta er eiginlega bara geggjað. Það er lögreglumaður klár á hæðinni okkar ef einhver ætlar að brjótast inn, einhver tilbúinn að opna lyftuna um leið og maður kemur og svona. Það er bara eins og maður sé kominn af kóngafólki, þjónustan er svo góð. Ætli þetta sé ekki svona fyrir þá sem eru að spila í Kína, þeir hafa lögreglumenn og menn í lyfturnar.“

Miðað við uppganginn í Kína, eruð þið með það á bak við eyrað að það gætu verið einhverjir njósnarar á vellinum að fylgjast með ykkur?

„Persónulega er ég ekki mikið að pæla í því, en maður myndi ekkert slá hendinni á móti því ef eitthvað kæmi upp og manni boðið gull og græna skóga. En ég held að menn séu frekar bara ánægðir að fá að spila fyrir landsliðið og vilja gera það eins vel og hægt er.

En það er örugglega lengst inni í hausnum, þó maður sé ekki með það á útopnu að vera kominn til Kína til þess að fá samning,“ sagði Björn Daníel og hló að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert