Bæjarritari verður ekki staðgengill bæjarstjóra Akraness

Um leið og bæjarstjórn Akraness samþykkti ráðningu Gísla S. Einarssonar í starf bæjarstjóra Akraness, var tilkynnt að meirihluti bæjarstjórnar hefði komist að samkomulagi um að forseti bæjarstjórnar verði staðgengill bæjarstjóra og í fjarveru þeirra verði formaður bæjarráðs staðgengill bæjarstjóra. Þetta kemur fram á fréttavefnum skessuhorn.is

„Undanfarin kjörtímabil hefur málum verið þannig háttað að Jón Pálmi Pálsson, bæjarritari, hefur verið staðgengill bæjarstjóra. Fulltrúar minnihluta bæjarstjórnar, Sveinn Kristinsson og Guðmundur Páll Jónsson, mótmæltu þessari bókun og töldu að með henni væri freklega gengið gegn ráðningarsamningi kaupstaðarins við bæjarritara.

Samkvæmt upplýsingum Skessuhorns hljóðar umrætt ákvæði í ráðningarsamningi Jóns Pálma Pálssonar svo: „Í þeim tilvikum sem bæjarstjóri er fjarverandi vegna orlofs eða annarra fjarvista, gegnir bæjarritari starfi bæjarstjóra. Í þeim tilvikum skal bæjarritari vera á launakjörum bæjarstjóra þann tíma sem hann gegnir starfi hans.“

Jón Pálmi segir þessa ákvörðun hafa komið sér á óvart, enda hafi hann verið staðgengill bæjarstjóra síðan 1987 og öll sveitarfélög sem hann þekki tíl í, bæði minni og stærri sveitarfélög, hafi þann háttinn á að bæjarritari eða sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs sé staðgengill bæjarstjóra. Aðspurður undrast hann þessa bókun og segir hann ekkert hafa verið rætt við sig fyrir fundinn og ekki fengið neinar skýringar á málinu og því lítið um málið að segja á þessu stigi.

Gunnar Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar Akraness, segir ekki óeðlilegt að meirihluti bæjarstjórnar hverju sinni geri með sér samkomulag um hver sé staðgengill bæjarstjóra. Slíkt hafi verið gert nú og ekki sé verið að brjóta á starfskjörum eða skyldum bæjarritara. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um málið," að því er segir í frétt á vefnum Skessuhorn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert