A-listinn í Reykjanesbæ hyggst endurkaupa fasteignir bæjarins

A-listinn í Reykjanesbæ mun kaupa til baka fasteignir bæjarins af Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf. komist hann til valda í komandi bæjarstjórnarkosningum og telur að með því sparist um 180 milljóna kr. útgjöld á ári. Þeirri fjárhæð hyggst listinn verja til að bæta þjónustu við íbúana og lækka útgjöld þeirra.

Frambjóðendur A-listans sem er sameiginlegt framboð minnihlutaflokkanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, það er að segja Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins, auk óflokksbundinna bæjarbúa, kynntu helstu áherslur sínar á blaðamannafundi í gær.

Fá hagkvæmari lán

Reykjanesbær seldi á kjörtímabilinu skóla sína, íþróttamannvirki og fleiri eignir til Eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf. sem bærinn er stór hluthafi í og Fasteign hefur síðan byggt mikið fyrir bæinn. Jafnframt þessu var gerður leigusamningur um afnot bæjarins til langs tíma. Sveitarfélagið hefur rétt til að kaupa eignirnar til baka með fimm ára millibili. Þá heimild ætlar A-listinn að nýta sér komist hann til valda.

Reykjanesbær greiðir hátt í hálfan milljarð í leigu til Fasteignar á ári. Reynir Valbergsson, bæjarstjóraefni A-listans, segir að tekið verði lán til að greiða fyrir eignirnar en verðmæti þeirra er á fimmta milljarð kr. Með því að taka jafngreiðslulán til 30 ára sem er leigutími eignanna segir hann að bærinn muni spara sér um 180 milljónir kr. á ári. Reynir fullyrðir í samtali við Morgunblaðið að Reykjanesbær eigi kost á betri lánskjörum einn og sér en í gegnum Fasteign hf. Þá geti bærinn tekið við þessu verkefni án þess að ráða starfsmenn til viðbótar. Þessir tveir þættir vega að hans sögn þyngst í þeim sparnaði sem A-listinn telur að náist með þessari aðgerð.

Peningarnir verða notaðir til að auka þjónustu við bæjarbúa og lækka útgjöld þeirra. Þannig mun A-listinn lækka leikskólagjöld um helming. Hann mun bjóða öllum grunnskólabörnum skólamáltíðir án endurgjalds. Listinn hyggst tryggja öllum börnum jafna möguleika til íþróttaiðkunar og þátttöku í menningar- og tómstundastafi með þátttökukortum að andvirði 25 þúsund kr. A-listinn ætlar að lækka fasteignagjöld ellilífeyrisþega og öryrkja og miða við tekjur. Þá ætlar hann að gera kostnað við vistun barna hjá dagmæðrum sambærilegan við vistun á leikskólum. Tekjur bæjarins munu lækka um 180 milljónir kr. á ári við þessar ákvarðanir.

Aðspurður hvort hækka þurfi hlutfall útsvars og fasteignaskatts segir Reynir að A-listinn muni ekki hækka álögur á bæjarbúa. Hann tekur jafnframt fram að ekki verði dregið úr framkvæmdum.

Aukið lýðræði

A-listinn mun leggja áherslu á aukið lýðræði við stjórnun Reykjanesbæjar. Í stefnuauglýsingu hans kemur fram að efnt verði til atkvæðagreiðslu meðal bæjarbúa um álver í Helguvík, að undangenginni nákvæmri úttekt á kostum og göllum álversins. Reynir segir að það sé grundvallaratriði í þessu máli og öðrum að þau séu kynnt vel fyrir íbúunum áður en ákvarðanir séu teknar.

A-listinn hyggst vinna að því að fá sólarhringsvakt á skurðstofu sjúkrahúss Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, að ný skurðstofa verði tekin í notkun og bráðamóttaka efld. Reynir Valbergsson segir að það myndi auka öryggi íbúanna og gæti auk þess stuðlað að því að sjúkraflug færðist til Keflavíkurflugvallar sem og innanlandsflugið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert