„Við eigum hvergi heimili“

Viðmælandi mbl.is segir seljendur fasteigna notfæra sér neyð Grindvíkinga til …
Viðmælandi mbl.is segir seljendur fasteigna notfæra sér neyð Grindvíkinga til að skara eldi að eigin köku í viðskiptum sínum og næla sér í nokkrar milljónir aukreitis á kostnað þeirra sem allt hafa misst. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er Grindvíkingur og flóttamaður úr Grindavík og var búinn að staðfesta kaup á húsnæði í Sandgerði,“ segir heimilisfaðir úr Grindavík í samtali við mbl.is sem segir farir sínar ekki sléttar af fasteignaviðskiptum í Sandgerði þar sem hann segir seljanda fasteignar hafa hækkað söluverð um milljónir til að auðgast á eymd þeirra sem neyðst hafa til að flýja heimili sín.

Viðmælandinn kýs að koma ekki fram undir nafni enda málið viðkvæmt og konu hans er ekki kunnugt um það sem hér fer á eftir. „Ég einfaldlega get ekki lagt það á hana eftir allt sem á undan er gengið,“ segir heimilisfaðirinn sem er á fertugsaldri og verður á götunni með fjölskyldu sína eftir hálfan mánuð í kjölfar fasteignaviðskipta sem snerust upp í sár vonbrigði.

Ekki fyrsta dæmið

„Ég var búinn að staðfesta kaup á húsi í Sandgerði og allt gengið í gegn þannig séð nema hvað maður var að bíða eftir [fasteignafélaginu] Þórkötlu sem var búið að draga lappirnar. Konan sem ég var að kaupa af var að kaupa af öðrum og það var allt gengið í gegn,“ segir Grindvíkingurinn frá.

Er þarna var komið sögu segir hann seljandann, sem hans seljandi hugðist kaupa af, hafa fengið lögfræðing til að rifta kauptilboðinu þar sem hann hugðist hækka verð eignarinnar um fimm milljónir og setja hana svo aftur á sölu.

„Þetta er bara græðgi í fólki sem er að notfæra sér neyð okkar Grindvíkinga,“ segir maðurinn af viðskiptum sínum sem aldrei urðu. „Maður er þegar að spenna bogann of hátt, maður fær brunabótamatið en maður fær aldrei alveg eins hús og maður átti í Grindavík,“ heldur hann áfram en hann fékk sjálfur lögfræðing til að rifta sínum hluta af kaupunum í dag, þriðjudag, og er meira en vonsvikinn.

„Þetta er ekki fyrsta dæmið sem ég heyri um svona lagað, þetta hefur gerst nokkrum sinnum og nú enda ég á götunni um mánaðamótin í staðinn fyrir að fá afhent í Sandgerði. Ég á reyndar hjólhýsi en þú sérð nú bara hvernig það er, með tvö börn, konu, hund og kött í hjólhýsi. Ég veit ekkert hve lengi það ástand mun vara, við áttum að fá afhent 15. maí og það er engin leið að fá leiguhúsnæði. Nú gæti maður verið að horfa fram á einhverja mánuði í hjólhýsi,“ segir Grindvíkingurinn.

Fólk viti af þessu

Hann gerði tilboð í eignina í Sandgerði fyrir tveimur mánuðum en þriðji kaupandi var einnig í spilinu svo dómínókubbakeðjan var orðin æði löng. Sá var að bíða eftir tilbúinni nýbyggingu.

Viðmælandinn bendir á að hækkun á fasteignamarkaði vegna fasteignaþarfar Grindvíkinga eftir hamfarirnar sé sjö prósent. „En það erum við sem lendum í þessu og mig langar bara til að fólk viti af þessu og sjái hvað er að gerast,“ segir hann. „Seljandinn fær í rauninni fimm milljónir í vasann til að koma öðru hvoru okkar á götuna,“ heldur hann áfram og á við sjálfan sig og áðurnefnda konu sem var næst í röðinni, „maður skilur ekki að fólk geti farið að sofa og liðið vel með sjálft sig, annað okkur lendir á götunni en hinn aðilinn fer alltaf brosandi í burtu með fimm milljónir aukalega,“ segir hann.

„Við eigum hvergi heimili og ekkert heimili í vændum neins staðar,“ eru lokaorð Grindvíkingsins eftir skyndilegt skipbrot áætlana og drauma um heimili á nýjum stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert