„Fyrir mér er þetta ekkert annað en sauðfé“

Styrja kíkir upp úr vatninu þegar blaðamenn og ljósmyndari Morgunblaðsins …
Styrja kíkir upp úr vatninu þegar blaðamenn og ljósmyndari Morgunblaðsins virða fiskana fyrir sér. mbl.is/Brynjólfur Löve

Í gömlu saltfiskhúsi á Ólafsfirði leynist stórmerkileg framleiðsla sem er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Þar hefur Eyþór Eyjólfsson frumkvöðull komið upp styrjueldi og framleiðir hann kavíar úr styrjuhrognunum – eina verðmætustu afurð Íslands í dag.  

Styrjan er um 240 milljóna ára gömul fisktegund eða „syndandi steingervingur“ eins og Eyþór kýs að lýsa fisknum. Virðast styrjurnar kíkja upp úr vatninu þegar forvitnir blaðamenn virða skepnurnar fyrir sér í bláu kerjunum í heimsókn í gamla saltfiskhúsið.

Eyþór lýsir fiskunum sem syndandi steingervingum.
Eyþór lýsir fiskunum sem syndandi steingervingum. mbl.is/Brynjólfur Löve

„Þær eru bara eins og fólk“

Hrogn og svil eru strok­in úr styrj­un­um með einkaleyfisaðferð frá há­skól­an­um í Brem­er­haven. Er þannig komist hjá því að fisknum sé slátrað og eiga styrj­urn­ar að geta gefið hrogn annað hvert ár.

„Þær eru bara eins og fólk,“ segir Eyþór þegar blaðamaður spyr hvort styrjurnar séu grimmar eða mannýgar.

„Sumar eru mjög gæfar og sumar eru leiðinlegar. Sumar eru skemmtilegar. Ég handfóðraði nú allar styrjurnar í hálft ár og maður er eiginlega farinn að þekkja styrjurnar,“ segir Eyþór og heldur áfram:

„Maður nær öðru sambandi við svona fiska þegar maður handfóðrar þá, tekur þá, strýkur egg úr þeim og frjóvgar eggin. Fyrir mér er þetta ekkert annað en sauðfé – eða bara búfénaður.“

Eyþór ræðir styrjueldið og margt fleira í Hringferðarviðtali við Morgunblaðið í tilefni af 110 ára blaðsins. Ítarlegra viðtal má lesa í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert