Lækka gjaldskrár til að liðka fyrir kjarasamningum

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Jón Pétur

Gjaldskrár Reykjavíkurborgar vegna þjónustu við börn og barnafjölskyldur verða lækkaðar að jafnaði um 2% frá og með fyrsta júní næstkomandi.

Tillaga, sem samþykkt var í borgarstjórn, felur í sér að hækkanir um síðustu áramót eru dregnar til baka að hluta til og hækkanir viðkomandi gjaldskráa nemi almennt ekki meira en 3,5% á árinu, miðað við árið í fyrra.

Aðgerðin er liður í að liðka fyrir gerð kjarasamninga, að því er segir í tilkynningu frá borginni.

„Þann 7. mars síðastliðinn skrifaði Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, undir yfirlýsingu um stuðning ríkisstjórnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna kjarasamninga. Til að greiða fyrir langtímakjarasamningum á vinnumarkaði munu ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga vinna að aðgerðum sem styðja við sameiginleg markmið stjórnvalda og samningsaðila um að leggja grundvöll að bættum lífskjörum og kaupmætti launafólks og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. Áskorun var send á sveitarfélög vegna þeirrar yfirlýsingar og er lækkun gjaldskrár meðal atriða sem þar koma fram,” segir í tilkynningunni.

„Reykjavíkurborg lýsti yfir vilja sínum til að endurskoða gjaldskrár sínar á fundi borgarráðs þann 21. desember síðastliðinn og horfa þá sérstaklega til gjaldskrár vegna þjónustu við börn og barnafjölskyldur. Í tillögu borgarstjóra, sem samþykkt var í borgarstjórn í gær, kemur fram að „Reykjavíkurborg hefur um árabil tryggt fjölskyldum í borginni og barnafólki hagstæðar gjaldskrár fyrir þjónustu sína og verið í fararbroddi meðal sveitarfélaga hvað það varðar. Það er stefna borgarinnar að vera áfram hagstæðasta borg fyrir fjölskyldufólk til að búa í með hliðsjón af gjaldskrám”,” segir jafnframt í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert