Getur horfið á 0,1 sekúndu

Einar Þorsteinn Ólafsson lék á sínu fyrsta stórmóti í janúar.
Einar Þorsteinn Ólafsson lék á sínu fyrsta stórmóti í janúar. mbl.is/Eyþór Árnason

Einar Þorsteinn Ólafsson, landsliðsmaður í handbolta, er í stóru hlutverki hjá Fredericia í Danmörku en liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum um danska meistaratitilinn með sannfærandi sigri á GOG um síðustu helgi.

„Við áttum frábæran leik á móti GOG í úrslitaleik um að komast í undanúrslitin. Við erum í frábærri stöðu núna. Lífið úti er rosalega huggulegt. Maður er kominn í smá rútínu, umhverfið er gott og liðsfélagarnir eru góðir. Maður er einbeittur fyrir næstu leiki,“ sagði hann við mbl.is.

Fredercia fór einnig í undanúrslit í fyrra og endaði að lokum í þriðja sæti. Kom liðið gríðarlega á óvart.

Einar Þorsteinn í leik gegn Austurríki.
Einar Þorsteinn í leik gegn Austurríki. Ljósmynd/HSÍ

„Það var ekki búist við þessu af okkur í fyrra, en það er meiri pressa á okkur í ár að gera það sama og jafnvel fara enn lengra. Við setjum pressuna á okkur sjálfir,“ sagði hann. Guðmundur Guðmundsson þjálfar Fredericia.

„Gummi býst við miklu frá manni og þannig vill maður hafa þjálfarann. Hann dregur það besta úr manni og hann er góður í því.“

Einar Þorsteinn lék á sínu fyrsta stórmóti á EM í byrjun árs og hann er þakklátur fyrir traustið sem Snorri Steinn Guðjónsson hefur sýnt honum. „Þetta getur horfið á 0,1 sekúndu og það er mikilvægt að njóta. Þetta er mikill heiður fyrir mig.“

Einar er uppalinn hjá Val og er sáttur við að uppeldisfélagið sé komið í úrslit Evrópubikarsins. „Ég er búinn að vera að horfa á alla þessa leiki og ég er mjög ánægður. Vonandi fara þeir alla leið og taka þetta,“ sagði Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert