„Ég var skammaður á almannafæri“

Erla Friðriksdóttir og Sturla Böðvarsson, sem eru bæði fyrrverandi bæjarstjórar í Stykkishólmi segja að bærinn hafi mikla sérstöðu vegna allra gömlu húsanna sem prýða bæinn.

Erla segir frá því í hlaðvarpsviðtali við Morgunblaðið í tengslum við 110 ára afmæli blaðsins að hún hafi, þvert á ráðleggingar frá arkitekti, látið byggja splunkunýtt hús í hjarta bæjarins sem er í gömlum stíl. Í sama viðtali segir Sturla frá því að hann hafi verið skammaður á almannfæri fyrir það að láta gera upp gömlu húsin í bænum þegar hann var sveitastjóri á svæðinu.

Erla segir að fólki líði betur þegar það sé fallegt í kringum það og það eigi ekki bara við um heimili heldur bæjarfélög. 

„Þetta hús er byggt 2016 og er í hjarta bæjarins,“ segir Erla en viðtalið er tekið í Æðarseti Íslands í Stykkishólmi þar sem húsið lítur út fyrir að vera gamalt og uppgert en ekki nýtt. Erla grandskoðaði húsin í kring, bæði hurðar og glugga, til þess að þetta nýja hús myndi falla sem best inn í umhverfið. 

„Þegar ég flutti hingað aftur 2005 þá var hér á skipulagi parhús í funkisstíl. Ég keypti þau rök af arkitektinum þegar ég var að rökræða við hann. Hann sagði að þegar maður byggði nýtt þá byggði maður nýtt og í nýjum stíl. „Maður á ekki að vera að gera svona leikmyndir,“ sagði hann. Það eru skiptar skoðanir á þessu og það er vandasamt verk að byggja inn í gamlan miðbæ eins og er hér. Þetta var niðurstaðan og ég held að fólk sé almennt,“ segir Erla um nýja húsið sem rímar við önnur hús í kring. 

28 ára stráklingur með skoðanir

„Ég má til með að nefna það að þegar ég kom hingað 28 ára gamall stráklingur sem sveitastjóri. Þá sat ég einn daginn, sumarið 1975, á biðstofunni í bankanum. Ég var að bíða eftir því að fá viðtal við bankastjóra Búnaðarbankans til þess að geta borgað út hjá bænum og fá lán. Fá yfirdráttarheimild. Þá kemur til mín gamall Hólmari og segir: „Sæll og blessaður, þú ert nýi sveitastjórinn okkar. Ég skal segja þér það,“ sagði þessi fullorðni maður. „Þeir hafa nokkrir verið hérna en þeir hafa ekki verið lengi. Ég veit ekki hversu lengi þú verður en ég ætla að gefa þér eitt gott ráð. Láttu rífa gömlu kofana.“

Og svo dró hann mig út á stétt og benti mér á það sem við kölluðum þá Settuhöllina, Egilsen hús sem er nú hótel. Ég sagði við hann: „Ágæti maður ég mun aldrei standa fyrir því að rífa gömul hús. Pabbi minn var byggingarmeistari og kenndi mér að smíða glugga í gömul hús. Ég er forfallinn húsfriðunarmaður.“ Þar með var þessu samtali lokið,“ segir Sturla og rifjar upp að sveitastjórnin hafi fengið Hörð Ágústsson listamann og fornhúsafræðing í samstarf við bæinn til þess að gera húsakönnun. Sturla segir að Þor Magnússon þjóðminjavörður hafi líka unnið með þeim í þessu verkefni. 

„Við samþykktum tillögu Harðar um friðun bæjarhlutans og friðun húsanna gömlu. Það var algerlega einróma niðurstaða, eftir miklar umræður náttúrlega í bæjarstjórninni, það voru ekki allir sammála í bænum og ég var skammaður á almannafæri fyrir að láta gera við þennan garm, Settuhöllina. Í dag vildu allir Lilju kveðið hafa,“ segir Sturla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert