Svona er framtíðarsýn Keldnalandsins

Dómnefndin telur tillöguna geta orðið mikilvægt fordæmi við mótun nýrra …
Dómnefndin telur tillöguna geta orðið mikilvægt fordæmi við mótun nýrra hverfa Mynd/FOJAB

Tillaga sænsku arkitektastofunnar FOJAB bar sigur úr býtum í alþjóðlegri samkeppni um þróun Keldnalands. Vinningstillagan byggir meðal annars á tengingu við borgarlínu og borgarlínustöðvum og hverfiskjörnum. 

Í vinningstillögunni er einnig lögð áhersla á að einfalt sé fyrir íbúa að lifa sjálfbæru og heilbrigðu hversdagslífi vegna nálægðar við náttúruna, með grænum svæðum, hverfisgörðum og torgum. Hægt er að sjá hér að neðan nokkrar myndir og myndskeið sem sýna hvernig áformað er að nýja hverfið líti út samkvæmt vinningstillögunni.

Mun breytast áður en framkvæmdir hefjast

Í dómnefndaráliti um vinningstillöguna segir að í henni sé sett fram ítarlegt og ígrundað net leiða fyrir alla ferðamáta, sem rími vel við blöndun byggðar og staðsetningu þjónustu. Með raunhæfri leið fyrir Borgarlínuna ásamt vel staðsettum hverfiskjörnum nýtist landið vel og dreifing þéttleikans er sveigjanleg en leiðir eru jafnframt greiðar gegnum byggðina.

Þróunarvinna og skipulagsgerð er á frumstigi þó samkeppni sé lokið og góð forsögn fyrir áframhaldandi vinnu liggi fyrir. Nálgunin í tillögunum og myndefni í þeim þarfnast töluverðrar úrvinnslu og mun breytast í áframhaldandi skipulagningu og hönnun, áður en skipulagsáætlanir verða staðfestar og framkvæmdir geta hafist.

Vinningstillagan byggir á raunhæfri leið fyrir Borgarlínu og vel staðsettum …
Vinningstillagan byggir á raunhæfri leið fyrir Borgarlínu og vel staðsettum stöðvum og hverfiskjörnum. Mynd/FOJAB

Arkitektúrinn miðast við mannlegan skala

Haft er eftir Magdalenu Hedman, arkitekt og verkefnisstjóra tillögunnar hjá FOJAB, að áhersla á kolefnishlutleysi setji mark sitt á skipulagsvinnuna og sömuleiðis að borgarhverfi sem þetta sé frekar óalgengt á Íslandi.

„Arkitektúrinn í tillögu okkar miðast við mannlegan skala – þrjár til fimm hæðir – en er á sama tíma nógu þéttur og vel tengdur til að skapa lifandi borgarumhverfi,“ er haft eftir henni í tilkynningu Reykjavíkurborgar.

Ítarlegt og ígrundað net leiða fyrir alla ferðamáta, rímar vel …
Ítarlegt og ígrundað net leiða fyrir alla ferðamáta, rímar vel við blöndun byggðar og staðsetningu þjónustu. Mynd/FOJAB

Borg þar sem íbúar eru háðir einkabílum

Í dómnefndaráliti segir að viðfangsefni samkeppninnar, eins og þau komu fram í keppnislýsingu, endurspegli metnaðarfull markmið í borgarþróun, sem ekki eigi sér fordæmi á Íslandi.

„Hugsanlega verður litið á einhver þeirra með tortryggni, til dæmis þau sem snúa að kolefnishlutleysi og raunverulegri fjölbreytni í ferðamátum, í borg þar sem íbúar eru háðir einkabílnum og byggðin er fremur dreifð miðað við íbúafjölda. Eftir skoðun á tillögunum telur dómnefndin þó enn raunhæfara en áður að markmiðin náist og Keldnaland verði mikilvægt fordæmi við mótun annarra nýrra hverfa.“

Í vinningstillögunni er einnig lögð áhersla á að einfalt sé …
Í vinningstillögunni er einnig lögð áhersla á að einfalt sé fyrir íbúa að lifa sjálfbæru og heilbrigðu hversdagslífi vegna nálægðar við náttúruna. Mynd/FOJAB
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert