Komnir í mark en stærsta áskorunin fram undan

Það voru mikil fagnaðarlæti þegar hlaupararnir komu í mark.
Það voru mikil fagnaðarlæti þegar hlaupararnir komu í mark. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hlaupahópurinn Boss HHHC hljóp í mark við Laugardalshöll á fimmta tímanum síðdegis. Hlaupið var frá Akureyri til Reykjavíkur og voru allir hlauparar klæddir jakkafötum frá Hugo Boss. Á morgun mun hópurinn hlaupa í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka og þar með ljúka sjötta maraþoninu sínu á sex dögum dögum.

Hóp­ur­inn hleyp­ur fyr­ir Kraft, stuðnings­fé­lag fyr­ir ungt fólk sem greinst hef­ur með krabba­mein og aðstand­and­end­ur, og í minn­ingu Ingu Hrund­ar Kjart­ans­dótt­ur sem lést á síðasta ári aðeins 37 ára af völd­um krabba­meins. Inga Hrund var eig­in­kona Rún­ars Marinós Ragn­ars­son­ar, góðvin­ar hóps­ins.

Falleg stund við markið

Mbl.is náði tali af tveimur hlaupurum í hópnum, þeim Pétri Ívarssyni og Bjarna Ármannssyni, stuttu eftir að þeir komu í mark við Laugardalshöll, þar sem þeir sóttu númeramiða fyrir maraþonið á morgun.

„Það var gríðarlega falleg stund þegar pabbi hennar Ingu og Rúnar og systir hennar Ingu hittu okkur á skráningarathöfninni í Laugardalshöll. Maður var hálfklökkur,“ segir Pétur.

Hlaupið var meðfram Hvalfirði í dag.
Hlaupið var meðfram Hvalfirði í dag. Ljósmynd/Facebook

Stærsta áskorunin á morgun

„Við erum þreyttir líkamlega en andlega erum við svo upptjúnaðir að það vegur upp á móti,“ segir Bjarni, sem svarar játandi þegar hann er spurður hvort hópurinn sé tilbúinn í hlaupið í fyrramálið.

„Núna erum við búnir að vera í prógrammi í fimm daga þar sem við höfum sest inn í bíl og nært okkur og hvað annað. Á morgun erum við að fara að hlaupa 42 kílómetrar frá upphafi til enda. Þannig að þetta verður öðruvísi og eflaust miklu meiri áskorun en hitt,“ segir Pét­ur.

„Þetta var brekka í upphafi að því leyti að veðrið var allt of gott. Það var heitt að hlaupa í þessum jakkafötum og þau tóku vel í,“ bætir Pétur við en síðan hafi önnur áskorun tekið við: gríðarlegur mótvindur og rigning.

Sjö milljónum safnað

„Það sem upp úr stendur eru bara góðu stundirnar. Að hlaupa í þessu fallega landslagi á þjóðveginum, skynja þessa tillitssemi ökumannanna og okkar samferðafólks, samheldnin í hópnum og að horfa á styrktarfjárhæðina fara upp, þetta er það sem stendur upp úr,“ segir Bjarni.

Hópurinn setti sér það markmið að safna fimm milljónum króna fyrir Kraft. Náði hópurinn að uppfylla það markmið á miðvikudaginn en nú hafa yfir sjö milljónir króna safnast.

Segir Bjarni að háar fjárupphæðir hafa borist frá nokkrum fyrirtækjum en einnig hafa nokkur hundruð einstaklinga lagt hönd á plóg. „Okkur þykir jafn vænt um tvö þúsund-karlana og tvöhundraðþúsund-kallana,“ segir Pétur.

Hópurinn klæðist allur jakkafötum frá Boss.
Hópurinn klæðist allur jakkafötum frá Boss. mbl.is/Árni Sæberg

Mikill stuðningur

Hlaupararnir segjast vera afar þakklátir fyrir þann stuðning sem þeir hafa fengið á leið sinni til Reykjavíkur. Er þeir nálguðust bæinn hafi margir vegfarendur átt leið fram hjá hlaupahópnum og hvatt hann áfram með bílflauti.

Auk þess hafa hlaupararnir fengið stuðning frá ýmsum fyrirtækjum.

„Þetta verkefni hefði aldrei verið hægt að gera ef við hefðum ekki notið stuðnings og góðvildar frá styrktar aðilum, eins og Öskju sem lánar okkur þrjár bifreiðar. Kjarnafæði útvegaði okkur mat. Ölgerðin útvegaði okkur drykki,“ segir Pétur og Bjarni bætir við: „Við fengum fría gisting í skólastofum, við fengum frítt rafmagn hjá N1 og mat frá Krónunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert