Frá Akureyri til Reykjavíkur í sparifötum á 5 dögum

Hlaupahópurinn hleypur frá Akureyri til Reykjavíkur á fimm dögum í …
Hlaupahópurinn hleypur frá Akureyri til Reykjavíkur á fimm dögum í snyrtilegum klæðnaði. Samsett mynd

Hlaupahópurinn Boss HHHC hleypur í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka á laugardaginn en það verður þá sjötta maraþon hópsins á jafn mörgum dögum. Hópurinn lagði af stað hlaupandi klukkan átta í dag frá Akureyri og verður kominn til Reykjavíkur á föstudaginn. Þeir hlupu að sjálfsögðu í snyrtilegum klæðnaði frá Boss.

Hópurinn hleypur fyrir Kraft, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandandendur, og í minningu Ingu Hrundar Kjartansdóttur sem lést á síðasta ári aðeins 37 ára af völdum krabbameins. Inga Hrund var eiginkona Rúnars Marinós Ragnarssonar, góðvinar hópsins.

Rúnar sjúkraþjálfari flestra í hópnum

„Þessi hugmynd að hlaupa frá Akureyri með alla stofnfélaga hlaupahópsins frá Akureyri til Reykjavíkur er orðin að veruleika. Þetta tengist okkur persónulega því að Rúnar Marinó vinur okkar margra og sjúkraþjálfari okkar flestra missti konuna sína Ingu fyrir ári síðan kornunga þannig við erum að sameina krafta okkar og gera þetta í minningu hennar,“ segir Pétur Ívarsson, verslunarstjóri Boss í kringlunni og einn hlaupari í hópnum.

Um tvær milljónir hafa safnast fyrir hópinn sem munu renna til Krafts en hópurinn stefnir á að safna fimm milljónum áður en að laugardeginum lýkur. Hægt er að heita á hópinn inn á vefsíðu Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka

„Við erum mjög þakklátir að vera komnir með tvær milljónir núna í startholunum og höfum fulla trú á því að við náum okkar markmiði áður en yfir líkur þann nítjánda ágúst í Reykjavík.“

Á fleygiferð um Norðurland.
Á fleygiferð um Norðurland. Ljósmynd/Aðsend

Hlaupa í jakkafötum frá Boss

Hópurinn telur sautján manns og er þeim skipt í tvö lið þar sem hvert lið hleypur maraþon á dag sem gerir samtals um 84 kílómetra daglega. „Vegalengdin frá Akureyri til Reykjavíkur er 420 kílómetrar sem eru tíu maraþon og við förum tvö maraþon á dag.“

Pétur segir það ekki nýtt af nálinni að hlaupa í jakkafötum og bendir á að hann hafi gert það þrisvar áður. Hópurinn hleypur í jakkafötum frá Boss sem eru úr teygjanlegu efni en Pétur segir aðspurður að það sé ekki vandkvæðum bundið að hlaupa í snyrtilegum klæðnaði þó að þeim sé nokkuð hlýtt í fötunum.

„2014 hljóp ég einn í jakkafötum í Reykjavíkurmaraþoninu, 2017 hlupum við með lið í jakkafötum, 2018 hlupum við með blandað lið í jakkafötum og höfum alltaf safnað miklu. Við vildum færa þetta upp á næsta stig.“

Taka pollamótið á þetta

Spurður hvernig þeir séu að tækla ferðalagið varðandi gistingu á leiðinni til Reykjavíkur segir Pétur að þeir séu að taka pollamóts aðferðina á þetta kíminn.

„Þetta er bara N1 mótið. Við vorum á gólfinu í Þórsheimilinu í nótt og verðum síðan í félagsheimilinu á Sauðarárkróki. Við erum bara með dýnur og svefnpoka. “

Hægt er að fylgjast með ferð hópsins frá Akureyri á Facebook-síðu tileinkaðri hlaupunum þar sem ýmsum myndum og færslum er deilt.

Hópurinn klæðist jakkafötum frá Boss.
Hópurinn klæðist jakkafötum frá Boss. Mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert