Rennir algjörlega blint í sjóinn

Valdimar kveðst hafa fljótt áttað sig á að þunglyndiskast hjálpaði …
Valdimar kveðst hafa fljótt áttað sig á að þunglyndiskast hjálpaði ekki neitt. mbl.is/Hákon Pálsson

„Ég er aðallega að hugsa um að koma sjúkraþjálfaranum mínum í mark,“ segir Valdimar Sverrisson í samtali við Morgunblaðið og fylgir hjartanlegur hlátur.

Valdimar er blindur en vílar þó ekki fyrir sér að hlaupa tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu í dag. Um leið er hann einstaklega skemmtilegur. „Ég fór með móður minni til New York árið 2017 á tónleika með Paul McCartney. Við Paul eigum sama afmælisdag, 18. júní,“ segir Valdimar frá.

Honum hafi þá flogið það í hug að úr því hann gæti arkað um New York hlyti hann eins að geta hlaupið í Reykjavíkurmaraþoninu. „Ári síðar hljóp ég svo fyrstu tíu kílómetrana eftir að ég missti sjónina,“ heldur hann áfram. Hana missti Valdimar í kjölfar þess að hann greindist með heilaæxli árið 2015. „Ég fór í aðgerð 15. júní 2015 þar sem æxlið var fjarlægt og ég missti sjónina eftir það,“ segir Valdimar sem er 55 ára gamall.

Æðruleysi og húmor

„Ég hélt fyrst að þetta væri bara spurning um nokkra daga þar til sjónin kæmi aftur. Svo kom í ljós að þetta var varanlegt. Ég hugsaði með mér að þetta gengi ekki, ég er lærður ljósmyndari og á þrjár dætur og ætlaði mér bara að leggjast í þunglyndi,“ heldur Valdimar áfram. Hann hafi fljótt áttað sig á að þunglyndiskast hjálpaði ekki neitt. „Ég náði sem betur fer að taka þetta á æðruleysinu og húmornum,“ segir hann.

Sjúkraþjálfarinn, sem nefndur var í upphafi viðtalsins, Jósteinn Einarsson, hleypur með Valdimari. Þeir eru tengdir með bandi. „Þetta er svona garðslöngubútur,“ segir Valdimar, „svo hlaupum við hlið við hlið og hann leiðbeinir mér“.

Hleypur ekki með hverjum sem er

En skyldi þá ekki vera skelfilega óþægilegt að hlaupa blindur? Óttast Valdimar ekki að hlaupa á eitthvað? „Nei nei, ég er svo vanur að hlaupa með Jósteini. Ég get ekki hlaupið með hverjum sem er en ég treysti honum. Við erum að fara að hlaupa núna í fimmta skipti og ég safna alltaf fyrir góð málefni. 2018 safnaði ég fyrir Blindrafélagið, svo safnaði ég fyrir Barnaspítala Hringsins og Landssamband Sjálfsbjargar og í fyrra fyrir Grensásdeild Landspítalans þar sem ég var í endurhæfingu eftir aðgerðina. Og nú er ég að safna fyrir Kattavinafélag Íslands,“ segir Valdimar Sverrisson sem sér ekki neitt en lætur það hvorki spilla kímnigáfu sinni né æðruleysinu og hleypur tíu kílómetra í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert