Ekki þverfótað fyrir Dönum í Leifsstöð

Danir hafa streymt til landsins, og frá landi að heimsókn …
Danir hafa streymt til landsins, og frá landi að heimsókn lokinni. AFP

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru 45.600 í nýliðnum júlí samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia, eða 80,3% færri en í júlí í fyrra, þegar þær voru um 231 þúsund talsins. Danir voru fjölmennastir í mánuðinum.

Danir voru ríflega fimmtungur brottfara og fjölgaði þeim um þriðjung frá júlí í fyrra, að því er fram kemur á vef Ferðamálastofu.

Næstfjölmennastir voru Þjóðverjar (20,2%) en þeir voru ríflega helmingi færri en í fyrra.

Frá áramótum hafa um 387 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll sem er 65,8% fækkun miðað við sama tímabil í fyrra en þá voru brottfarir erlendra farþega um 1,1 milljón talsins.

Af einstaka þjóðernum voru flestar brottfarir í júlí tilkomnar vegna Dana en brottfarir þeirra voru tæplega 10 þúsund eða 32,7% fleiri en í júlí í fyrra. Í öðru sæti voru Þjóðverjar með um níu þúsund brottfarir, ríflega helmingi færri en í júlí á síðasta ári. Samtals voru brottfarir Dana og Þjóðverja 41% brottfara erlenda farþega í júlí.

Þar á eftir fylgdu brottfarir Pólverja (21,8%), Svisslendinga (6,9%), Frakka (6,5%), Norðmanna (5,1%), Hollendinga (4,6%), Breta (3,1%), Belga (2,6%) og Eista, Letta og Litháa (2,2%).

Um 13.300 Íslendingar fóru utan í júlí í ár eða 77,9% færri en í júlí 2019. Frá áramótum (janúar-júlí) hafa um 108 þúsund Íslendingar farið utan en um er að ræða 259 þúsund færri brottfarir en á sama tímabili í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert