Mikilvægt að vera á tánum

Lilja Dögg Alfreðsdóttir.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tíðindin um að brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll í mars hafi verið 173 þúsund í mars eru mjög ánægjuleg.

Þetta segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, sem ræddi við blaðamann að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Um er að ræða álíka margar brottfarir og mældust í mars metárið 2018. Sömuleiðis hefur heildarneysla ferðamanna aldrei verið meiri. Á síðasta ári nam hún 845 milljörðum króna.

Lilja Dögg segir mikilvægt fyrir stjórnvöld að vera áfram á tánum vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga þegar kemur að ferðaþjónustunni því hún búi til mestar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. „Það er mögulega þannig að þegar hún hóstar þá fær allt hagkerfið mögulega kvef,” segir hún um ferðaþjónustuna.

Ferðamenn á Þingvöllum.
Ferðamenn á Þingvöllum. mbl.is/Árni Sæberg

Verðbólgan þarf að lækka

Lilja Dögg segir tíðindin um aukinn fjölda ferðamanna sérstaklega góð í ljósi fréttaflutnings erlendis um jarðhræringarnar sem hafi einkennst af upplýsingaóreiðu. Stjórnvöld hafi í kjölfarið farið í auglýsingaherferð sem virðist hafa skilað sér.

Spurð segir hún sumarið líta vel út hvað varðar ferðaþjónustuna.

„Áhyggjuefnið er að Ísland er dýr áfangastaður og því hraðar sem verðbólga fer niður, því betra fyrir allt hagkerfið, þannig að enn og aftur er það meginleiðarljós í öllu sem við erum að gera.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert