Segir skýrsluna áfellisdóm fyrir slökkviliðið

Frá Miðhrauni í Garðabæ eftir eldsvoðann.
Frá Miðhrauni í Garðabæ eftir eldsvoðann. mbl.is/RAX

Guðni Á. Haraldsson, lögmaður hóps fólks sem krefst skaðabóta frá fyrirtækinu Geymslum vegna brunans í Miðhrauni í fyrra, segir skýrslu Mannvirkjastofnunar um brunann vera ákveðinn áfellisdóm fyrir slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og byggingarfulltrúa.

„Þetta staðfestir það sem við vissum. Það átti að setja upp úðunarkerfi í rými Icewear. Eldvarnareftirlit slökkviliðsins brást og byggingarfulltrúi brást. Þetta er til staðfestingar á því sem við vissum,“ segir hann.

Málinu var áfrýjað til Landsréttar 21. júní og það síðan þingfest í ágúst síðastliðnum. Guðni telur að málið verði tekið fyrir í Landsrétti í febrúar eða mars á næsta ári.

Gríðarlegt tjón varð þegar eldurinn braust út.
Gríðarlegt tjón varð þegar eldurinn braust út. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fóru ekki eftir reglum og leiðbeiningum 

Meginniðurstaða í skýrslu Mannvirkjastofnunar er að ekki var farið eftir þeim reglum og leiðbeiningum sem voru í gildi.

Bent er sérstaklega á fjögur atriði sem voru í ólagi. Ekki var óskað eftir lokaúttekt þegar húsnæðið var fyrst tekið í notkun, ekki var heldur óskað eftir úttekt á stöðu framkvæmda áður en byggingin var tekin í notkun.

Þá var ekki sótt um leyfi fyrir breyttri notkun byggingarinnar þegar henni var breytt með afgerandi hætti úr kvikmyndastúdíói fyrir Latabæ í lager með auknu brunaálagi fyrir Icewear.

Þar að auki setur Mannvirkjastofnun út á að eldvarnaeftirlit slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins hafi ekki sinnt reglubundnu eldvarnaeftirliti í samræmi við reglugerð um eldvarnaeftirlit sveitarfélaga með atvinnuhúsnæði sem hefur verið tekið í notkun en samkvæmt henni hefði átt að skoða húsnæði af þessari stærð einu sinni á ári.

Takmarkaðir möguleikar til slökkvistarfs

„Niðurstöður eru þær að við breytta notkun varð brunaálag í byggingunni langt yfir því sem gert var ráð fyrir við brunahönnun byggingarinnar. Ásamt fyrrnefndum atriðum er þetta talin höfuðástæða þess að svo fór sem fór,“ segir í skýrslunni.

„Vegna brunaálagsins, þeirrar hröðu brunaþróunar sem átti sér stað og aðstæðna almennt, voru möguleikar til slökkvistarfs mjög takmarkaðir. Léttir brunahólfandi veggir EI 90 og EI 60 réðu ekki við þann reykþrýsting sem varð í lagerrýminu þar sem eldurinn kviknaði, enda var brunaálag langt yfir því sem var gert ráð fyrir í samþykktum hönnunargögnum. Reykur og brunagös fóru að streyma yfir í nærliggjandi brunahólf strax í upphafi brunans, m.a. þar sem reyklosunarop voru ekki í samræmi við brunaálag og op fyrir aðloft vegna reyklosunar voru ekki fullnægjandi.“

mbl.is/Ásdís

Reyndi að bjarga tölvu og féll á næstu hæð

Eitt slys varð á vettvangi þegar reykkafari datt niður um hæð, en tvö reykköfunarteymi fóru saman inn til að kanna möguleika á að því að bjarga tölvu með mikilvægum gögnum á annarri hæð.

Reykkafarinn opnaði þar hurð og féll niður á næstu hæð. Hann bjargaði sjálfum sér upp með því að klifra upp slönguna sem hann var með og með aðstoð reykkafarans sem var með honum. Bæði reykkafarateymin voru fjarskiptalaus, en einn reykkafaranna fór strax út og lét vita. Á meðan aðstoðuðu hinir tveir þann sem féll niður.   

Fram kemur að telja verði mikla mildi að ekki fór verr því slökkviliðsmaðurinn hefði getað hlotið mun alvarlegri áverka.

„Eftir á að hyggja verður það að teljast umhugsunarvert að hafa sent reykkafara inn í bygginguna þar sem ekki var um lífbjörgun að ræða. Mikill reykur og hiti var á efri hæðinni (norðurenda) þegar reykkafararnir lögðu til atlögu til að bjarga tölvu með mikilvægum upplýsingum,“ segir í skýrslunni.

„Þar sem búið var að gera breytingar sem ekki voru sýndar á teikningum sást ekki hurðin sem lá niður í geymslurýmið, þetta hefur án efa ruglað bæði stjórnendur og reykkafara.“

Slökkviliðið að störfum í Miðhrauni.
Slökkviliðið að störfum í Miðhrauni. mbl.is/Ásdís

1,7 milljarða eignatjón

Í skýrslunni kemur fram að samkvæmt áætlun frá þeim tryggingafélögum sem hafa aðkomu að brunanum má gera ráð fyrir að heildartjónaupphæð geti verið um 1,7 milljarðar króna.

Samkvæmt upplýsingum úr fasteignamati hjá Þjóðskrá Íslands er brunabótamat mannvirkisins fyrir árið 2019 1.240.350.000 kr. og fasteignamat 994.650.000 kr. Þessar tölur eru frá síðustu áramótum.

Reiknað er með að tjón á mannvirkinu sé um 80 til 90%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert