Tókst ekki að sýna fram á miska

Lögreglustöðin við Hlemm.
Lögreglustöðin við Hlemm. mbl.is/Golli

Íslenska ríkið var í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær sýknað af kröfu stúlku sem hafði sofnað vímusvefni í ljósabekk á sólbaðsstofu við Grensásveg og verið gert að klæða sig fyrir framan lögreglumenn. Stúlkan fór fram á að íslenska ríkið greiddi sér 900 þúsund krónur í miskabætur en dómari féllst ekki á það enda hafi henni ekki tekist að sýna fram á þann miska sem þetta olli henni.

Lögregla hafði afskipti af stúlkunni 11. apríl 2015 eftir að hafa fengið tilkynningu um tvær stúlkur í annarlegu ástandi á sólbaðsstofu við Grensásveg 7 í Reykjavík. Í bókun lögreglumannsins kemur fram að stúlkan sem fór fram á bæturnar og önnur stúlka hafi verið sofandi vímusvefni í ljósabekkjum og að starfsfólk hafi óskað eftir að þær yrðu fjarlægðar af lögreglu.

Starfsmenn hefðu breitt handklæði yfir stúlkurnar til að hylja nekt þeirra. Lögreglumönnum hefði að lokum tekist að vekja stúlkurnar og hafi sú sem stefndi lögreglunni verið í töluvert verra ástandi en hin stúlkan. Hún hafi verið fjarlægð og flutt á Hverfisgötu 113 þar sem staðið hafi til að bjóða henni gistingu. Við komu á lögreglustöðina hafi hún verið orðin hressari og þá hafi henni verið ekið heim til ömmu sinnar.

Samkvæmt dagbók lögreglu kom stúlkan eftir miðnætti sama kvöld á lögreglustöðina við Hverfisgötu þeirra erinda að sækja bíllykil sinn, sem fundist hafði í lögreglubifreið. Þá var bókað að hún kvaðst ósátt við að lögreglumenn (karlar) hefðu horft á hana nakta í sólbekknum og að hún hafi óskað eftir upplýsingum um nöfn þeirra lögreglumanna sem unnið hefðu að málinu.

Fyrir dómi kom fram í máli stúlkunnar að hún hafi verið nakin í sólbekknum á sólbaðsstofunni og að lögreglumennirnir hefðu neitað að fara út úr klefanum meðan hún klæddi sig.

Lögreglumenn kváðu starfsfólk stofunnar hafa breitt handklæði yfir hana áður en þeir komu. Þeir hafi vikið úr klefanum meðan hún klæddist og hafi það tekið drjúga stund. Hún lýsti því fyrir dómi að lögreglumennirnir hefðu leitt hana fótgangandi að lögreglustöð við Grensásveg, en hún mundi ekki hvort henni hafi verið haldið þar lengi, hún myndi næst eftir sér heima hjá ömmu sinni. Samkvæmt framburði lögreglumanna var stefnanda ekið beint frá sólbaðsstofunni að lögreglustöðinni við Hverfisgötu og þaðan skömmu síðar heim til ömmu hennar.

Hún kvaðst fyrir dómi hafa verið handtekin af lögreglu en lögreglumenn sem komu fyrir dóm kváðu hana ekki hafa verið handtekna. Skýrsla um handtöku liggur ekki fyrir. Samkvæmt skýrslu lögreglu, dags. 12. október 2016, um fyrrnefndar dagbókarfærslur vegna atviksins, var um að ræða aðstoð við borgara. Þar segir að engin skýrsla hafi verið rituð og málið einungis dagbókarfært.

Stúlkan beindi kæru vegna háttsemi lögreglu og meintrar handtöku til ríkissaksóknara 27. maí 2015 en rannsókn málsins var hætt 15. desember 2015 þar sem skoðun á þeim gögnum sem fyrir lágu þóttu ekki gefa tilefni til frekari rannsóknar.

Stúlkan segist hafi upplifað mikla niðurlægingu vegna framgöngu lögreglu. Sjónarmið um meðalhóf hafi verið brotin á ámælisverðan hátt en hæglega hefði verið hægt að fá kvenkyns lögreglumann til að sinna umræddu verki eða þá, að stíga út úr klefanum á meðan hún klæddi sig í föt. Lögreglustöð hafi aðeins verið steinsnar frá ljósabekkjastofunni þar sem hún hafi verið handtekin, þ.e. þáverandi lögreglustöð á Grensásvegi. Hefði því hæglega verið hægt að kalla út kvenkyns lögreglumann með stuttum fyrirvara hefði raunveruleg þörf á yfirsetu verið til staðar.

Fjárkrafa sé fundin á þann veg að 900.000 krónur þyki hæfilegur miski í samræmi við afleiðingar rannsóknaraðgerða lögreglu. Krafist sé dráttarvaxta frá því að mánuður sé liðinn frá þingfestingu málsins.

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að ekki sé talið að stúlkunni hafi tekist að sanna að hún eigi rétt á miskabótum úr hendi íslenska ríkisins eins og byggt er á í stefnu. Því sé íslenska ríkið sýknað af kröfu hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert