Metfjöldi flóttafólks til Íslands í ár

Flóttamenn og förufólk hafa streymt til Evrópu í ár.
Flóttamenn og förufólk hafa streymt til Evrópu í ár. AFP

Sjö hælisleitendur hafa fengið stöðu flóttamanns og jafn margir hafa fengið viðbótarvernd sem veitir dvalarleyfi til fjögurra ára. Af þessum 14 hælisleitendum eru 11 Sýrlendingar. Alls 98 hafa fengið stöðu flóttamanns eða kvótaflóttamanns, eða fengið vernd, á þessu ári. Það er metfjöldi.

Um er að ræða þrjár fjölskyldur og fólk á öllum aldri.

Áshildur Linnet, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi, segir fimm börn í þessum hópi.

Fyrr á þessu ári fengu 13 Sýrlendingar stöðu kvótaflóttamanns og bætast 55 í þann hóp í desember. Hafa stjórnvöld boðað að tekið verði á móti fleiri flóttamönnum á næsta ári.

Áshildur segir aðspurð að það eigi eftir að afgreiða fleiri hælisumsóknir frá Sýrlendingum í ár.

Hún segir réttarstöðu einstaklinga sem fá alþjóðalega vernd vera sterka. Eftir að fjögurra ára dvalarleyfi þeirra lýkur geti þeir sótt um búsetuleyfi og íslenskan ríkisborgararétt eftir fimm ár.

Metfjöldi flóttamanna 1975 og 2015

Alls hafa 74 einstaklingar fengið stöðu flóttamanns eða kvótaflóttamanns á Íslandi í ár sem er mesti fjöldi á einu ári síðan árið 1999, þegar 75 flóttamenn komu frá fyrrum ríkjum Júgóslavíu. Bæði árin eru metár.

Áshildur segir aðspurð að samtals hafi aldrei jafn margir fengið stöðu flóttamanns eða kvótaflóttamanns, eða fengið vernd, og á þessu ári, eða samtals 98.

Við þetta bætist nokkur fjöldi sem hafi fengið vernd vegna hælisumsókna sem lagðar voru fram fyrir nokkrum árum og Útlendingastofnun hefur afgreitt í ár.

Fyrir ofangreinda ákvörðun höfðu alls 603 einstaklingar komið til Íslands sem kvótaflóttamenn síðan árið 1956.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert